Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Hættulegar eftirlíkingar af þekktu áfengi í umferð -Fréttatilkynning

25.07.2003

Í Finnlandi hefur einn maður látist og nokkrir veikst alvarlega eftir neyslu eftirlíkinga af þekktum áfengistegundum. Í Noregi er einn maður í öndunarvél af svipuðum orsökum. Um er að ræða eftirlíkingar af m.a. Absolut vodka og Captain Morgan rommi. Eftirlíkingarnar innihalda m.a. metanól og etylenglykól, sem eru betur þekkt sem tréspíri og frostlögur.

Ekki er ástæða til að óttast vöru sem seld er eftir viðurkenndum leiðum og hægt er að rekja beint til framleiðanda. Hins vegar eru eftirlíkingar þessar mjög áþekkar hinni réttu framleiðslu og því full ástæða að varast vöru þar sem uppruni er óviss.

Öll vara sem seld er í vínbúðum ÁTVR er keypt af viðurkenndum umboðsaðilum og fer í gegnum strangt gæðaeftirlit. Reglur um vöruskil þeirra áfengistegunda sem um ræðir hafa verið hertar og verða þær einungis mótteknar gegn framvísun kassakvittunar og skoðaðar nákvæmlega áður en þær eru settar í sölu aftur.