Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Fjölnota er framtíðin

13.08.2021

Ný lög um burðarpoka tóku gildi í byrjun júlí og í kjölfarið voru einnota pokar sem innihalda plast teknir úr sölu á kassasvæðum búða. Vínbúðirnar ákváðu að hætta alfarið sölu einnota poka og viðskiptavinir hafa tekið vel í breytinguna. Á síðasta ári keypti fjórði hver viðskiptavinur burðarpoka, en nú hefur hlutfallið farið niður í sextánda hvern viðskiptavin. Á sama tíma tvöfaldaðist sala fjölnota poka; fór úr átta þúsund í sextán þúsund.

Því miður hefur afhending á fjölnota burðarpokum frá framleiðanda dregist töluvert og því hefur þurft að grípa til einnota poka í nokkrum Vínbúðum til að brúa bilið, en einnota pokar munu í framtíðinni heyra sögunni til.

Margir viðskiptavinir hafa þegar vanið sig á að koma með fjölnota poka að heiman, en það hlutfall á eflaust eftir að hækka töluvert með tímanum. Margir eru líka duglegir að endurnýta pappakassa sem aðgengilegir eru við afgreiðslukassa í flestum Vínbúðum.

 

Rúmlega 20 þúsund einnota pokar seldust nú í júlí en 145 þúsund á sama tíma í fyrra.