Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Aukin þekking hjá Vínbúðunum

22.09.2022

Berglind Helgadóttir, sem unnið hefur sem vínsérfræðingur hjá Vínbúðunum í mörg ár hefur nú hlotið hæstu gráðu frá einum virtasta vínskóla í heimi, Wine and Spirits Education Trust School London (WSET). Gráðan kallast WSET Level 4 Diploma in Wines and Spirits en að henni lokinni hlýtur viðkomandi nafnbótina DipWSET. Aðeins tveir íslendingar hafa hlotið þessa nafnbót og báðir vinna hjá Vínbúðunum. Einungis um 12.000 manns hafa hlotið þessa gráðu í heiminum.

Mikil vinna liggur að baki, en Berglind hefur verið í stöðugri þjálfun t.d. á lyktar- og bragðskyni auk þess að lesa sig ítarlega til um öll helstu vínfræði. Námið er í sex hlutum sem endar hver með lokaprófi og telja samtals yfir 13 klukkustundir þar sem þarf að greina 21 tegund. Viðamesta prófið tekur 2 daga að þreyta, þar sem meðal annars þarf að greina 12 tegundir í blindsmakki með mikilli nákvæmni.

Námið nýtist Berglind vel í starfi, en hún vinnur á vörusviði og sér um fræðslu til starfsfólks Vínbúða, ásamt því að koma að vörulýsingum og tengingu tegunda við mat, sem nýtast viðskiptavinum vel við valið á rétta víninu. 

Í Vínbúðunum starfar einnig hópur vínráðgjafa sem farið hafa í gegnum nám í sama skóla, en þeir hafa lokið næst hæstu gráðu skólans. Þeir þekkjast á svörtu svuntunum sem merktar eru WSET Vínráðgjafi.

Við erum afar stolt af Berglind og óskum henni innilega til hamingju með árangurinn.