Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Valpolicella

Fræðsla er stór hluti í þjónustu Vínbúðanna og er vel við hæfi að hefja nýtt ár á Ítalíu, en vín þaðan njóta aukinna vinsælda og þá sér í lagi rauðvínin. 

Rauðvín frá Valpolicella í Veneto eru sérlega vinsæl um þessar mundir. Frá svæðinu koma rauðvín í fjölbreyttum stíl. Vínin eru gerð úr þrúgunum Corvina, Rondinella og Molinara, sem eftir mismunandi ferli í víngerðinni fá mismunandi bragð, áferð og kraft. Á flöskumiðanum má svo átta sig á stíl vínsins og gæðum.  Í stórum dráttum má skipta svæðinu í Valpolicella og Valpolicella Classico, sem er talið betra. Svo má sjá orðið Superiore á sumum flöskum, en það merkir að vínið hafi verið þroskað á tunnum í a.m.k. eitt ár.

Amarone segir okkur að hér sé á ferðinni toppvín; kröftugt, kryddað og bragðmikið. Þrúgurnar í þessi vín eru þurrkaðar í 4-5 mánuði í sérstökum húsum. Safinn er síðan fullgerjaður svo vínin verða ósæt, stundum þó með sætuvotti. Vínið er því næst þroskað á tunnum í að minnsta kosti 2 ár og sum í allt að 5 ár.

Ripasso er Valpolicella sem hrati úr Amaronevíngerðinni er bætt í og látið liggja í um tíma og síðan gerjað aftur. Við þetta verður vínið bragðmeira og flóknara. Yfirleitt má gera góð kaup í Ripasso.

Valpolicella eru létt og ávaxtarík vín sem henta með ljósu kjöti, pasta, pizzum og léttum réttum. Standi Classico á miðanum er um að ræða Valpolicella í meiri gæðum og sé einnig Superiore  er það merki um tunnuþroskun.

Á skýringarmyndinni hér fyrir neðan má sjá helstu stíla frá Valpolicella.

 

Á skýringarmyndinni hér fyrir neðan má sjá helstu stíla frá Valpolicella.

Páll G. Sigurðsson
vínráðgjafi

Páll G. Sigurðsson vínráðgjafi