Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Rósavínssala undanfarin ár

Það er bara eitt um rósavínssölu undanfarinna á Íslandi ára að segja; hún er niður á við.  Á meðfylgjandi línuriti má sjá þróunina síðastliðin 18 ár.

Rósavínssala undanfarin ár
 
Þetta er eins og áður sagði stöðugur samdráttur í sölu.  Áhugavert er að sjá að árið 1998 seldust rétt um 130.000 lítrar af rósavíni, en síðasta ár seldust nákvæmlega 48.969 lítrar.  Þessir lítrar rósavíns skiptast á eftirfarandi lönd:

Rósavín 2015
 
Þegar kökurit af sölu síðasta árs er skoðað, er rétt að taka fram að salan á bandarísku rósavíni er bundin við hið svokallaða blush vín, eða á góðri íslensku svokallað roðavín.  Þar er einn framleiðandi líka algerlega ráðandi en það er Gallo risinn í Kaliforníu.  Hér eru þeir bara að selja þessa vöru undir þremur vörumerkjum, þ.e. Carlo Rossi, Barefoot og svo Gallo.

Uppistaða ítalskrar rósavínssölu er einnig svokallað roðavín eða blush, en það er Riunite lágfreyðandi rósavín frá Emilia Romagna héraðinu á Ítalíu.  
Rétt er að skoða aðeins þróun rósavínssölu í heiminum á undanförnum árum.  Það er fljótgert því rósavínssala er á stöðugri uppleið. Rósavínin eru sífellt að verða betri vara og þar sem hlýtt er í veðri á sumrin er mikið um að fólk setjist niður og svali þorsta sínum á kældu rósavíni.  

Í Suður – Evrópu er rósavín gjarnan notað með matreiðslu svæðisins.  Þá er verið að gæða sér á margskonar sjávarfangi, pylsum, ólífum og öðru góðgæti. Sól og hiti kalla á kælt vín og ef þú vilt eitthvað bragðmeira en hvítvín er rósavín augljóst val.     

 

Hvers vegna er þá samdráttur í rósavínssölu hér á landi? Dalandi rósavínssala hérlendis tengist augljóslega veðurfarinu hjá okkur. Það er þó ekki skýringin að öllu leiti, því hvítvín, sem venjan er að kæla fyrir neyslu, hefur selst vel hér á landi undanfarin ár. Hver er þá skýringin?  Ég vil meina að á upphafsárum almennrar léttvínsdrykkju hér á landi hafi ákveðin rósavínsmenning myndast. Þá voru flottustu veislurnar það sem kallað var „kalt borð“, en það voru kaldir réttir á hlaðborði. Á þessum borðum var bæði fiskmeti og kjöt og margskonar meðlæti þar með. Vínið sem veitingamönnum þess tíma fannst tilvalið með svo fjölbreyttum mat var rósavínið. Þessi tegund veislurétta hefur nú vikið fyrir nýjum og breyttum smekk Íslendinga hvað varðar veislumat og rósavínið þar með.  

Létvínssala 2015

Gissur Kristinsson
Vínráðgjafi