Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Geymsla vína

Hvernig á að geyma rauðvín og hvítvín?
Ekki batna öll vín við geymslu. Flest vín eru gerð með það fyrir augum að vera drukkin ung og halda sér kannski í 2-3 ár eftir að þau koma á markað. Þau vín sem batna við geymslu þurfa að hafa eitthvað til að bera sem heldur þeim lifandi í mörg ár. Það er burðargrindin í víninu - sýra, tannín, sykur og vínandi - og jafnframt þessu þarf vínið að hafa nægan ávöxt og vera í jafnvægi.

Yfirleitt geymast rauðvín betur en hvítvín, bragðmikil vín betur en þau bragðminni og dýr vín betur en ódýr vín.

Geymsla í skamman tíma: Flest vín þola vel að geymast í nokkra mánuði og þá skipta aðstæður í raun litlu máli. Samt er ástæða til að forðast mikinn hita eða frost, svo og miklar hitasveiflur.

Geymsla í langan tíma: Sé vín geymt í langan tíma, þ.e. mörg ár, er mikilvægt að hitastig sé stöðugt og hitasveiflur litlar. Ákjósanlegt hitastig er á bilinu 10-14°, en hitastigið sjálft skiptir ekki svo miklu máli og getur verið allt að stofuhita. Við stofuhita þroskast vínið tiltölulega hratt, en í kaldri geymslu er þroskinn mun hægari. Hitabreytingar hafa áhrif á tappann og valda því að súrefni kemst að víninu, en súrefni flýtir mikið fyrir hrörnun víns. Flöskurnar þurfa að liggja til að halda tappanum rökum og þéttum. Mygla ofan á tappa er ekki merki um að vín sé skemmt.

Ljós: Vín ætti að geymast á dimmum stað því talið er að ljós geti haft skaðleg áhrif á litarefni og gæði víns. Þess vegna eru vínflöskur litaðar til að draga úr áhrifum ljóss. Kampavín og freyðivín eru sérstaklega viðkvæm fyrir ljósi.