Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Brúðkaupshefðir

Brúðkaupshefðir - fyrirsögn

(úr Vínblaðinu, 2.tbl.8.árg.)

Bergþór Pálsson

Bergþór Pálsson hefur verið einn vinsælasti brúðkaupssöngvari landsins um árabil, bæði við athafnir og í veislum og er því öllum hnútum kunnugur. Það lá því beint við að spyrja hann um hefðir í sambandi við brúðkaup á Íslandi.

Varla er hægt að segja að hefðir við íslensk brúðkaup séu í föstum skorðum, enda flestar, ef ekki allar, að erlendri fyrirmynd. Að auki er tiltölulega stutt síðan farið var að blása til mikilla hátíðahalda í tengslum við brúðkaup hér á landi. Mamma og pabbi voru gefin saman, um leið og bróðir pabba og mágkona hans, heima hjá prestinum og á eftir bauð prestsfrúin upp á kleinur og kaffi. Um aðra gesti var ekki að ræða. Tímarnir breytast og mennirnir með.

Boðskort er gott að senda að minnsta kosti fjórum vikum fyrir athöfnina. Þau eru af ýmsum gerðum, en um nokkurt skeið hefur verið alláberandi að taka fram að gjafalisti liggi frammi í ákveðinni búð. Þetta hefur ýmsa kosti, gestir þurfa ekki að vera í vafa um að brúðhjónunum líki gjöfin og brúðhjónin eiga ekki á hættu að fá tíu straujárn. 

Á hinn bóginn hafa brúðhjónin sjálf frumkvæði að því að gestirnir gefi gjöf með þessum hætti. Það finnst sumum óþægilegt
og telja eðlilegra að þegar þeir svara boðskortinu, spyrji þeir brúðhjónin hvort þau vanti eitthvað sérstakt eða hreinlega
hvort þau hafi útbúið gjafalista. Ef svo er, er það fljótt að berast. Þá liggur frumkvæðið að gjöfinni hjá gestunum.

En til þess að þetta megi verða, er best að skrifa á boðskortið: Svar óskast. Þá er ljóst að allir eiga að svara, hvort sem þeir komast eða ekki. Ef þeir svara samt ekki, er best að hringja nokkrum dögum fyrir athöfnina. Skrifið aldrei: „Látið vita ef þið komist ekki“ í boðskort. Þá er viðbúið að maður hafi litla hugmynd um hve margir skila sér.

Oftast heilsa mæður brúðhjónanna gestum fyrir athöfnina (þó að talað sé um mæður og feður hér, er vitaskuld ekki alltaf um blóðmæður eða blóðfeður að ræða). Þá beina þær gjarnan þeim tilmælum til gesta að karlar setjist hægra megin, en konur vinstra megin, þó að það sé ekki algilt. Prestur nokkur tjáði mér að þessi skipan hefði tíðkast við messur í ensku biskupakirkjunni. Friðarkveðjan (þar sem kirkjugestir óskuðu hver öðrum friðar með kossi) hafði nefnilega gengið út í öfgar; sumir karlar réðust á sætu stelpurnar og ætluðu að kokgleypa þær. Hvernig þessi siður var tekinn upp í íslenskum brúðkaupum, veit ég ekki fyrir víst.

Margir telja að konur eigi að forðast hvítt og svart við brúðkaup, hvítan klæðnað af því að brúðurin eigi að fá að skera sig úr, svartan af því að hann sé sorgarlitur. Sumum verður því ekki um sel ef mæðurnar eru í svörtu, en ekki er þetta ekki í föstum skorðum, frekar en margt annað. Kannski klæðir svart sumar konur bara svona afskaplega vel.

Klapp eftir koss brúðhjónanna er að komast í tísku, sennilega fyrir áhrif bandarískra kvikmynda. Það er smekksatriði, þeir
íhaldssömustu segja að þegar maður klappar, setji maður fólk á stall. Í trúarathöfn eigi maður aftur á móti aðeins að setja guð á stall og tilbiðja hann. Víst er að það lyftir alltaf andanum þegar allir taka þátt í athöfn, en það er auðvitað hægt með ýmsu öðru móti, til dæmis er gaman að gestir séu beðnir að standa upp til að taka þátt í söng.

Skraut

Brúðkaup á nefnilega að hafa glaðlegt yfirbragð, en jafnframt hátíðlegt. Því má halda fram að brúðkaup sé grafalvarlegt mál og ef til vill frekar tímamót til að setjast niður og hugsa um framtíðina, heldur en að skemmta sér. Flest viljum við þó fagna vel! Sumir prestar virðast samt telja að veislan hefjist í kirkjunni, þeir séu eins konar veislustjórar og geti farið með drepfyndið grín úr Hellisbúanum, frekar en að flytja orð til íhugunar um virðingu, samvinnu, tillitssemi, trúfesti o.s.frv. Einhvern milliveg ætti að vera hægt að feta til að halda andrúmsloftinu glaðlegu!

Í veislunni er algengt að brúðhjón og foreldrar sitji við háborð. Brúðurin hægra megin við  brúðgumann og foreldrar hennar í framhaldi, en foreldrar brúðgumans vinstra megin við hann. Nú eru fjölskyldur orðnar svo flóknar miðað við það sem áður var, að stundum er betra að skipta einingunum niður á fleiri borð, svo að öllum líði vel.

Algengt er að feður brúðhjónanna standi upp til að tala og það er ágætur siður. Ræðurnar eiga að vera stuttar (3-5 mínútur), eins og allar tækifærisræður, og helst skemmtilegar. Stundum verða margir til að láta ljós sitt skína og oft er það frábær
skemmtun, en gott er að hafa í huga að allir geti notið þess sem talað er um. Sumt sem fólk lætur flakka í innsta kjarna vinahópsins á kannski ekki við þegar aldraðar frænkur eru mættar í sínu fínasta pússi.

Fyrst þetta er vínblað, er best að koma að ákveðinni sérvisku í sambandi við að skála. Þegar hrópað er húrra fyrir brúðhjónum, er þeim sýndur sérstakur heiður með því. Þá hrópa þau ekki húrra sjálf. Á sama hátt er þeim sýnd sérstök virðing þegar skálað er fyrir þeim. Þess vegna er spurning hvort ekki sé eðlilegra að brúðhjónin sitji hjá þegar skálað er fyrir þeim, en að þau þakki síðan fyrir heiðurinn, og jafnvel biðji gesti um að skála með sér fyrir kvöldinu eða framtíðinni.

Gæsanir og steggjanir hafa tekið á sig mildari mynd undanfarið, a.m.k. er langt um liðið síðan ég heyrði af því að brúðkaupi hafi verið aflýst þeirra vegna. Nú er algengt að einhver í hópnum taki allt upp á myndband, sem svo er sýnt í veislunni. Það getur komið vel út, en þó er umhugsunarefni að þeir sem eru í myndbandinu veltast oft um af hlátri, aðrir gestir síður. Einnig getur orðið vandræðalegt ef til dæmis var hellt vel upp á brúðina og síðan farið með hana á námskeið þar sem henni var kennt að strippa fyrir brúðgumann. Hvers eiga brúðguminn, pabbi og afi að gjalda? Og amma og …

Þegar ákveðið er hvað skuli hafa fyrirstafni, er skynsamlegt að finna eitthvað sem allir geta tekið þátt í, það er miklu skemmtilegra heldur en þegar bara sumir láta ljós sitt skína. Einu sinni var ég gestur í dönsku brúðkaupi. Þá lyftu karlmennirnir brúðgumanum upp, tóku hann úr öðrum skónum og klipptu framan af sokknum, svo að ekki þýddi fyrir hann að gera hosur sínar grænar fyrir öðrum konum. Einnig fengu gestir kerti á spjaldi, og blað í hina höndina með brag sem saminn var til brúðhjónanna. Meðan sungið var, gengu gestir í röð til brúðhjónanna og stungu kerti sínu í grænt moldarlíki („oasis“) sem komið hafði verið fyrir á borðinu. Þannig var ljósahafið tákn um góðar óskir til brúðhjónanna.

Fátt myndar meiri samkennd en hópdans, t.d. má mæla með færeyskum dansi. Allir geta lært hann, tvö skref til vinstri og eitt til hægri. Nota má hin og þessi lög, t.d. Ölerindi Hallgríms Péturssonar (Nú er ég glaður á góðri stund). Einfaldast er að varpa
textanum upp á tjald og það á raunar við um alla söngtexta. Textablöð verða oft eins og rusl út um veislusalinn.

Allt eru þetta álitamál og fólk hefur auðvitað hlutina eins og því finnst henta best. Munum bara að veitingar og önnur umgjörð um veisluna er bara bónus ef vel tekst til. Aðalatriðið er að allir séu glaðir í hjartanu!