Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Páskar og súkkulaði

Nú þegar páskarnir eru á næstu grösum fara mörg okkar að huga að páskasteikinni. Lambið er að sjálfsögðu alltaf vinsæll kostur hér á landi og jafnvel ein rauðvínsflaska, í betri kantinum, með. En það er nú ekki aðeins aðalrétturinn sem skiptir máli heldur líka það sem er borðað á milli mála yfir hátíðina. Súkkulaði er auðvitað gríðarlega vinsælt yfir páskana og þá auðvitað í formi hinna skemmtilegu eggja, en konfektið góða og fínna súkkulaðið er þó aldrei langt undan.
Hægt er að ná fram mjög skemmtilegum vínpörunum með súkkulaði en við skulum ekki gleyma bjórunum heldur. Hér að neðan eru nokkur dæmi um skemmtilegar súkkulaðiparanir með alls kyns drykkjum sem eru í sölu í Vínbúðunum.

Portvín
Styrkt sæt vín frá Douro dalnum í Portúgal sem eiga oft á tíðum góða samleið með súkkulaði. Hér eru rauðu portvínin að virka betur eins og Ruby (sér í lagi Ruby Reserve), Late Bottled Vintage eða árgangsportvín (Vintage Port). Þessi vín eru mjög ávaxtarík, hafa góða sýru og tannín sem virka vel með fitunni í súkkulaðinu og sætan vinnur vel á móti beiskjunni í súkkulaðinu. Prufið með súkkulaði í dekkri kantinum.

Banyuls
Banyuls vínin koma frá suðaustur horni Roussillon í Suður-Frakklandi. Þetta eru náttúrulega sæt styrkt vín, svokölluð Vin Doux Naturel úr þrúgunni Grenache. Rautt Banyuls er klassísk pörun með alls kyns súkkulaði. Grenache þrúgan gefur ákveðna mýkt í vínið sem hentar mjög vel með ögn ljósara súkkulaði en t.d. portvínin.

Moscato d’Asti
Léttfreyðandi, sæt og ávaxtarík hvítvín frá Asti svæðinu í Piemonte á Norður-Ítalíu. Þessi vín eru gerð úr hinni einkennaríku Moscato þrúgu (Muscat Blanc à Petits Grains). Verandi blómleg og ávaxtarík virka þessi vín frábærlega með ferskum ávöxtum eins og jarðarberjum og ljósum eftirréttum en eru einnig kjörin pörun með ávaxtatónunum í hvítu súkkulaði.

 

BJÓR
Bjór býður upp á ótal möguleika þegar kemur að súkkulaðipörun. Alls kyns bjórstílar eru í boði sem skemmtilegt er að leika sér með.

Stout og Porter
Það skemmtilega við bjóra er að þeir þurfa ekki að vera sætir til þess að virka með sætum réttum eða súkkulaði. Með sín einkenni af kaffi og súkkulaði eru þessir bjórar náttúruleg pörun við dökkt súkkulaði.


Dubbel
Þessi belgíski bjórstíll einkennist af nokkurri sætu ásamt tónum af súkkulaði og sætum kryddum og er því flottur kostur til pörunnar með mjólkursúkkulaði sem og millidökku súkkulaði.


Ávaxta Lambic og aðrir ávaxtasúrbjórar
Þessir bjórar bjóða upp á virkilega skemmtilega nálgun og koma að auki með ferskleika frá sýrunni sem finnst í þessum bjórstílum. Hér eru kirsuberin kannski hefðbundnasta hráefnið sem bruggarar notast við en einnig ferskjur, hindber, jarðarber og svo mætti áfram telja. Hér má leika sér að para bæði með hvítu og dökku súkulaði þar sem þessir bjórar koma með extra “twist” fyrir tilstilli ávaxtanna sem notast er við í framleiðslunni.

          Gleðilega páska!


Gísli Guðmundsson
vínráðgjafi