Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Bjórsagan

Upphafið á bjórframleiðslu er talið hafa verið fyrir rétt um 7.000 árum síðan og fornminjar frá miðausturlöndum benda til að þar sé að finna upphafið að bjórframleiðslu.  Einhvern veginn hefur það gerst að bygg hefur farið að spíra í bleytu. Við spírunina breytist sterkjan í bygginu í gerjanlegan sykur. Í loftinu hefur verið gersveppur sem því næst gerjar hið sætkennda vatn sem kornið hefur legið í. Þá hefur líklega einhver forvitinn komið að pollinum og tekið eftir að vatnið var farið að freyða, en það eru merki um að alkóhólgerjun sé í gangi.

Auðvitað þekktu menn á þessum ekki hvað þarna átti sér stað. Einhver hefur þó ákveðið að bragða á vatninu sem var að gerjast á náttúrulegan hátt og þótt nokkuð gott. Að öllum líkindum hefur viðkomandi drukkið það mikið af þessum vökva að hann hefur fundið fyrir einhverjum áhrifum frá alkohólinu. Þá var auðvitað ekki aftur snúið. Menn hafa alla tíð heillast af áhrifunum sem áfengir drykkir valda og þarna var búið að finna einn enn slíkan.


Hirðir faraóanna í Egyptalandi eru síðan taldar hafa þróað áfram bjórgerð þessa tíma, líklega fyrir hinar stórkostlegu veislur þeirra. Grikkir, sem voru miklir sjófarendur og verslunarjöfrar á þessum tímum, náðu síðan tökum á bjórframleiðslu og frá þeim berst þessi þekking út um alla Evrópu.


Munkaklaustrin í Evrópu urðu þá helstu bjórframleiðendurnir. Munkarnir voru lunknir garðyrkjumenn og ræktuðu mikið af korni til brauðbaksturs og í aðra matseld, en svo var auðvitað hægt að nota það sem eftir stóð til bjórgerðar. Klaustur sem höfðu komið sér upp góðum ökrum urðu þannig sjálfkrafa öflugir bjórframleiðendur.  
Framleiðsla á áfengum drykk varð strax mjög vinsæl í kaldari löndum Evrópu, þar sem veðrátta þar var of svöl til þess að hægt væri að rækta vínvið og búa til vín. Ennþá eru það löndin í Norður – Evrópu sem eru mestu bjórframleiðendurnir; þar er helst að nefna Þjóðverja, Breta, Belga, Hollendinga og Dani.  


Upphaflega var bjórinn vara sem skemmdist fljótt, en ekki leið á löngu þar til menn höfðu fundið leið til að lengja líftíma hans með því að krydda ölið til með margskonar kryddum. Þessi kryddvöndur var gjarnan kallaður „gruit“ og innihélt jurtir eins og malurt og rósmarín.

Snemma fór kirkjan að skattleggja þessa kryddtekjur og gera sér pening úr bjórframleiðslunni. Það varð auðvitað til þess að bjórinn hækkaði í verði, en klaustrin voru á þessum tíma að selja frá sér tilbúið öl. Bretarnir tóku upp á því að nota humla til að krydda og rotverja bjórinn og þar með var fundin lausn á kostnaðarsömu kryddinu, sem var bylting í allri framleiðslu.  Nú var hægt að framleiða í enn meira magni og flytja bjórinn langar leiðir til neytenda, án þess að hann skemmdist á leiðinni.Frægast er dæmið um IPA bjórinn, sem varð til á þessum tíma. Skammstöfunin stendur fyrir India Pale Ale, en það tengist því að loksins var fundin leið til þess að rotverja bjór það vel að hann þyldi langa siglingu frá Bretlandi til Indlands til þess að seðja þorsta breskra þegna í nýlendunni.

Þegar síðan fannst kuldaþolið ger varð til lagerbjórinn sem við þekkjum í dag.  Einnig náðu menn tökum á að einangra ákveðna stofna af geri, sem gerði þeim enn frekar fært að stýra framleiðslunni á bjórnum.  Með því að ná þetta góðum tökum á bjórframleiðslunni urðu til hin stóru fyrirtæki sem eiga þau vörumerki sem seld eru um víða veröld í dag.  


Gissur Kristinsson vínráðgjafi
Gissur Kristinsson
vínráðgjafi