Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Þrúgur

Þrúgur
Hægt er að segja að mikilvægustu þrúgutegundir heims séu rétt rúmlega 30 talsins. Ákveðnar þrúgutegundir gefa af sér vín með mjög sterk tegundareinkenni og mjög mismunandi er með hvernig mat þau henta.

Hér hafa verið skilgreind helstu einkenni nokkurra berjategunda (þrúgur).

Agiorgitiko

Rauð berjategund frá Grikklandi. Notuð m.a. til að gera Nemea. Oft bragðmikil og eikarblandin vín.

Alvarinho

Þessi hvíta þrúga er sú þekktasta frá norðurhluta Portúgals þar sem hún er ein meginuppistaðan í Vinho Verde.

Jafnframt er hún ræktuð handan við spænsku landamærin, í Galisíu þar sem hún er þekkt undir nafninu Albarino.

Þótt þrúgan sé með þykkt hýði og mikið af steinum þá er hún eftirsóknarverður kostur fyrir ræktendur þar sem hún gefur jafnan af sér meira alkohól, fyllingu og ilm en aðrar þrúgur sem ræktaðar eru á þessu svæði.

Með nútímalegum víngerðaraðferðum hefur tekist að framleiða prýðileg vín úr henni sem njóta stöðugt meiri athygli. Ekki hefur tekist að ná fram sömu gæðum annars staðar í heiminum.

Barbera

Ein mest ræktaða rauða þrúga heimsins en virðist hvergi ná að gefa af sér góð vín nema í heimahögum sínum á Norður-Ítalíu.

Er sýrumikil, litsterk og ávaxtarík og þarf nokkuð temprað loftslag til að ná fram sínu besta.

Þroskast frekar seint en vín gerð af henni eru mun auðdrekkanlegri meðan þau eru ung en af nágranna hennar Nebbiolo og er hún því uppistaðan í hversdagsvínum Norður-Ítala. Getur í góðum árum enst í langan tíma og þroskast vel.

Annars staðar, t.d. í Kaliforníu, er loftslag yfirleitt of heitt fyrir hana og þar gefur hún af sér þunglamaleg en áfengisrík vín. Er víðast hvar notuð í blöndur þar sem skortur er á sýru.
 

Cabernet Franc

Stendur víðast hvar í skugganum af hinum fræga ættingja sínum Cabernet Sauvignon en á sína traustu staði í Bordeaux t.d. í Saint-Emilion þar sem hún er mun útbreiddari en sú síðarnefnda. Kann betur við sig í leirkenndri jörð og þroskast fyrr en Cabernet Sauvignon sem gerir ræktun á kaldari svæðum auðveldari.

Hefur ekki sama bragð og Cabernet Sauvignon og inniheldur bæði minni tannín og sýru en er nauðsynleg til blöndunar. Hún er einnig ræktuð töluvert í Leirudalnum þar sem hún er uppistaðan í rauð- og rósavíns framleiðslunni þar. Hefur ekki náð nándar eins mikilli útbreiðslu en er nokkuð ræktuð á Ítalíu og í Austur-Evrópu.
 

Cabernet Sauvignon

Vinsælasta en þó ekki úbreiddasta rauðvínsþrúga veraldar og á frægð sína að þakka rauðum Bordeauxvínum þar sem hún er uppistaðan í þeim. Auðveld í ræktun en gefur helst til lítið af sér en bætir það upp með miklum gæðum. Finnst ekki í heimildum fyrr en um miðja 18. öld og tók hana rúm 200 ár að öðlast þann sess sem hún hefur í Médoc og annars staðar í heiminum.

Tannín-og sýrumikil, sem gerir hana sérlega vel fallna til langrar geymslu þótt víngerðarmenn hvarvetna séu nú farnir að flýta fyrir þroska hennar með mikilli notkun á nýjum eikartunnum. Er nánast ætíð blönduð öðrum mýkri og aðgengilegri þrúgum í Bordeaux en annars staðar s.s. í Kaliforníu og Ástralíu er hún oft notuð ein og sér. Dæmigerður ilmur er af sólberjum og sedrusviði og oftast sérlega litdjúp.

Carignan

Sú þrúga sem líklega skilar af sér mestu magni af rauðvíni ár hvert og þótt hún sé upprunnin á Spáni er hún mest ræktuð í Miðjarðarhafsloftslagi Frakklands og í Kaliforníu. Þótt ótrúlegt sé er hún frekar erfið í ræktun og er mjög gjörn á að sýkjast.

Er uppistaðan í rauðvínshafi ESB en oftar en ekki blönduð öðrum þrúgum og þá aðallega Cinsaut og Grenache sem þykja vera í hærri gæðaflokki. Blómgast seint og þarf löng og heit haust til að þroskast en gefur af sér ótrúlegt magn af víni eða um 15.000 lítra á hektara. Litsterk, tannínrík og með hátt áfengismagn.

Chardonnay

Líklega vinsælasta hvítvínsþrúga veraldar, bæði hjá neytendum og vínbændum. Ákaflega auðræktuð og er upprunnin í Búrgúndarhéraðinu í Frakklandi þar sem hún er notuð til gerðar bestu þurru hvítvína veraldarinnar. Fyrir stuttu uppgötvaðist með erfðafræðilegum rannsóknum að hún er komin af Pinot-þrúguættinni.

Hefur á síðustu 30 árum breiðst út um allan heim og er nú ræktuð nánast hvar sem vínviður vex. Hún er nánast alltaf gerjuð og þroskuð í eikartunnum til að ná fram svipuðum gæðum og í Búrgúnd en hættir til að verða yfir-eikuð í Ástralíu og Kaliforníu. Ein þriggja þrúgna sem leyfð er í Champagne til kampavínsgerðar.

Chenin Blanc

Útbreiddasta hvítvínsþrúga um miðjan Leirudal í Frakklandi og úr henni eru gerð afar fjölbreytt vín allt frá skraufþurrum og sýrumiklum (t.d. Anjou og Saumur) til hálfsætra og ávaxtaríkra (t.d. Coteaux du Layon). Hefur hátt sýruinnihald, sem ásamt góðum sykri, gerir hana heppilega til freyðivínsgerðar.

Er einnig ræktuð í Kaliforníu og í Suður-Afríku þar sem hún kallast Steen og er útbreiddasta hvítvínsþrúga þar í landi, sem og á Nýja-Sjálandi þar sem þrúgan hefur mikla möguleika á að ná miklum gæðum. Er í augnablikinu ekki mjög í tísku en getur í góðum árum gefið af sér óvenju langlíf og áhugaverð vín.
 

Colombard

Þótt Colombard sé langt því frá gæðaþrúga er hún býsna útbreidd og kemur mörgum á óvart að hún er t.d. sennilega mest ræktaða hvíta þrúgan í Kaliforníu. Hún er einnig töluvert ræktuð í Ástralíu þar sem hún hentar sérlega vel heitu og þurru loftslagi, því hún er sýrumikil og þroskast frekar seint svo ekki er nauðsynlegt að tína hana á mjög stuttum tíma. Hún gefur einnig sérlega mikið af sér og því í miklu uppáhaldi hjá vínbændum. Er oft notuð sem blanda út í sýruminni vín til að gefa nauðsynlega snerpu.

Furmint

Þekktasta hvíta þrúga Ungverjalands og sú sem leikur aðalhlutverkið í gerð dísætra Tokaji-vína. Sýrumikil og bragðsterk en með mjög þunnt hýði, sem gerir hana sérlega viðkvæma fyrir eðalmyglu er sest gjarnan á berin á haustin og dregur úr þeim vatnið svo eftir verður sætur berjasafinn. Alltaf blönduð með víni úr þrúgunni Hárslevelü í sæt Tokajivín en einnig er gert úr henni þurrt hvítvín sem er allrar athygli vert. Eitthvað ræktuð í Slóveníu og í Hvíta-Rússlandi en þar skín frægðarsól hennar varla eins skært.

Gamay

Styrkur rauðu Gamay-þrúgunnar (eða Gamay Noir á Jus Blanc, eins og hún heitir fullu nafni) liggur ekki í þyngd og "alvöru" hennar heldur því hvað hún er auðdrekkanleg. Er mest ræktaða þrúgan í Beaujolais og þekkja flestir hana sem vín undir samnefndu heiti þótt bestu vínin komi frá níu aðgreindum svæðum þar sem hvorki Gamay né Beaujolais kemur fyrir í nafninu, s.s. Moulin-a-Vent og Fleurie.

Undanfarið hefur frægð Beaujolais Nouveau farið vaxandi og, utan Frakklands, á kostnað vandaðri vína úr þessari þrúgu. Hefur mjög auðþekkjanlegan ilm af banönum og fjólum þegar það er ungt en getur í bestu árum þroskast í 10-15 ár og borið þá keim af nágranna sínum Pinot Noir. Nokkuð ræktuð í Leirudal og í Kaliforníu.

Gerwürztraminer

Gerwürztraminer er líklega ein auðþekkjanlegasta hvíta þrúga sem ræktuð er, með ilm sem minnir á rósir, greipávöxt og þvottaefni. Er líklega upprunnin á Ítalíu en hefur orðið þekktust í Elsass í Frakklandi þar sem úr henni eru gerð þurr, alkohólrík og bragðmikil matarvín.

Í Þýskalandi eru vín úr Gewürztraminer bæði sætari og með minna alkohól en geta engu að síður verið mjög ljúffeng. Tilraunir hafa verið gerðar til að rækta hana í Bandaríkjunum og Suður-Afríku en þar hafa vínin ekki verið eins dæmigerð. Vín úr Gewürztraminer henta vel með krydduðum og súrsætum mat eins og t.d. kínverskum.
 

Grenache

Grenache er rauðvínsþrúga sem menn tengja eðlilega við heitt og þurrt Miðjarðarhafsloftslag. Mest ræktaða rauðvínsþrúga á Spáni þar sem hún nefnist Garnacha Tinta. Hún þroskast hægt og þarf töluverðan hita og frekar langt haust til að ná þeim gæðum sem ákjósanleg eru. Nær oft miklu áfengismagni að gerjun lokinni og algengt er að hún nái 14-16%.

Hún gengur hratt í samband við súrefni eftir að berin hafa verið kramin, sem veldur því að henni er varla ætlað langlífi í flöskum. Mikið notuð sem blanda í Rioja-rauðvín og er einnig útbreidd í syðri hluta Rónardalsins þar sem hún leikur stórt hlutverk í Chateauneuf-du-Pape auk þess að vera megnið af blöndunni í Gigondas, Lirac og Tavel þar sem gert er úr henni þekktasta rósavín Frakklands. Er töluvert ræktuð utan Miðjarðarhafslandanna en er ekki í sama gæðaflokki þar.

Grüner Veltliner

Þessi hvíta þrúga er sú þekktasta í Austurríki og þótt hún sé varla fær um að gefa af sér hágæðavín eru þau nánast ætíð góð og jafnframt gefur hún af sér það mikið magn að bændur eru hæstánægðir með ræktunina. Dæmigert vín úr Grüner Veltliner er daufgrænt með nokkuð hátt sýrumagn og hefur kryddaðan ilm, sem minnir á þurr vín frá Elsass. Þau innihalda oft dálitla kolsýru sem gerir þau sérlega frískandi þegar þau eru drukkin ung. Eitthvað af henni er ræktað í Ungverjalandi og Slóveníu en nánast ekkert utan Evrópu. Vín úr þessari þrúgu eru best ung og geymast frekar illa.

Malbec

Malbec er rauðvínsþrúga sem var á góðri leið með að gleymast sem gæðaþrúga þar til vínbændur frá Argentínu fóru að setja sín vín á alþjóðlegan markað. Þrúgan er upprunnin í kringum Bordeaux en hefur nánast alveg verið skipt út fyrir auðveldari tegundir þótt enn sé hún nokkuð ræktuð í Bourg og Blaye.

Þekktust er hún sennilega í Cahors þar sem hún nefnist Cot eða Auxerrois og var víðfræg á sínum tíma sem þrúgan sem gaf af sér hin "svörtu" vín í Cahors. Mjög tannínrík með mikinn lit og bragð og gjarnan notuð í blöndur með þrúgum sem innihéldu minna af þeim efnum. Um þessar mundir líklega þekktust sem sérstök þrúga frá Argentínu þar sem hún gefur af sér dimm, þung og nokkuð málmkennd vín.

Marsanne

Útbreiddasta hvíta þrúgan í Norður-Rónardalnum þar sem hún er megin uppistaðan í hvítum Hermitage og Crozes-Hermitage vínum. Er einnig á uppleið sunnar í dalnum, t.d. í Saint-Joseph og í Saint-Péray þar sem hún er notuð til að framleiða þurr freyðivín.

Er bragðmikil, litsterk og nokkuð þunglamaleg með hátt áfengisinnihald og þarf að vera tína hana áður en hún þroskast til fulls svo hún nái að hafa nægjanlega sýru. Hefur komið á óvart í Victoriafylkinu í Ástralíu þar sem hún hefur gefið af sér ljúffeng og langlíf vín, sérstaklega hjá Chateau Tahbilk.
 

Merlot

Síðasti áratugur hefur án efa verið áratugur hinnar rauðu Merlot-þrúgu. Hún er upphaflega frá Bordeaux og helsti ræktunarstaður hennar er Pomerol þar sem hún er stundum eina þrúgan eins og í Chateau Pétrus. Hún gefur töluvert meira af sér en Cabernet Sauvignon og er að auki ávaxtaríkari að upplagi og auðdrekkanleg meðan þau eru ung.

Hún er notuð til að mýkja Cabernet Sauvignon í Médoc en hefur komið mest á óvart sem einnar þrúgu vín í Kaliforníu og Suður-Ameríku. Oftast nær mýkri og sætari en Cabernet Sauvignon og gjarnan með keim af sólbakaðri plómusultu. Margir telja uppgang hennar á mörkuðum því að þakka að hún ber nafn sem auðvelt er að muna en skýringin er líklega sú að vín úr henni eru í senn flókin en auðdrekkanleg.

Montepulciano

Á eftir Sangiovese er Montepulciano útbreiddasta ítalska rauða þrúgan.  Er algengust á Mið-Ítalíu og sérstaklega á austurströndinni. Upprunnin í Toskana eins og Sangiovese og oft ruglað saman við hana. Gefur af sér vín sem eru kraftmikil í æsku og einungis með næg tannín til að endast í 3-4 ár. Einnig eru gerð úr henni þekkt rósavín.

Er líklega ekki hágæðaþrúga en er mjög útbreidd vegna þess hve plantan gefur mikið af sér og hve vínin er auðdrekkanleg á meðan þau eru ung. Þekktast víngerðarsvæðið er líklega Montepulciano d'Abruzzo.

Mourvédre

Ein af fjórum helstu rauðvínsþrúgum sem notaðar eru í Chateauneuf-du-Pape en stendur í skugga þekktari þrúgna eins og Syrah og Grenache. Þykir góð til blöndunar þar sem hún er tannínrík, lit- og ilmsterk og hefur gott viðnám gegn helstu myglusveppum sem herja á vínvið. Er mikið notuð í Cotes-du-Rhone Village vín en ræktun á henni er þó nokkuð á undanhaldi þar sem Grenache er talin mýkri og auðdrekkanlegri meðan vínin eru ung. Nefnist Mataro í Kaliforníu og Ástralíu þar sem megnið af henni fer í að gera púrtvínslíki.

Müller-Thurgau

Müller-Thurgau er líklega frægasti kynblendingur vínsögunnar og tilkominn þegar Svisslendingurinn Dr. Hermann Müller frá Thurgau kantónunni, ræktaði saman Riesling og Silvaner, að sögn til að fá fram gæði Rieslingþrúgunnar og snemmþroska Silvaner.  Erfðafræðingar eru þó ekki á einu máli um hvort þetta sé tilfellið og í dag þykir líklegast að Müller-Thürgau sé blanda af tveimur Riesling-klónum.

Þetta er nú mest ræktaða hvíta þrúgan í Þýskalandi og var einnig mjög útbreidd á Nýja-Sjálandi en þar hefur ræktunin dregist stórlega saman síðasta áratug. Hún gefur af sér frekar bragðlítil og óspennandi vín sem nánast eingöngu fara í tvo lægstu gæðaflokkana, QbA og Tafelwein og er m.a. uppistaðan í hinu víðfræga Liebfraumilch.

Muscadet
(eða Melon de Bourgogne)

Þótt þessi hvíta þrúga sé upprunnin í Búrgúnd hefur hún orðið þekktust sem uppistaða í skraufþurrum, sýrumiklum og létt-kolsýrðum hvítvínum sem ræktuð eru við ósa Leirufljótsins í Frakklandi. Þau hafa gjarnan sjávar- eða joðbragð og eldast mjög illa. Þeim er gjarnan tappað beint á flöskur eftir gerjun og kallast þá "sur lie".

Er dálítið ræktuð í Bandaríkjunum þar sem þarlendir menn töldu hana fram undir 1970 vera Pinot Blanc og þar verður vín úr henni gjörólíkt því sem ræktað er í Frakklandi, bæði bragðmeiri og fyllri og meira í í átt að Chardonnay. Muscadetvín eru prýðileg með sjávarfangi, t.d. skelfiski.

Muscat
(eða Blanc á Petits Grains)

Meðal vínþrúgna er stór fjölskylda af þrúgum sem tilheyra Muscatættkvíslinni. Þær geta verið hvítar, bleikar og rauðar og ein þeirra, Alexandríu-Muscat þrúgan er drjúg í framleiðslu á rúsínum og matarvínberjum heimsins. Sú sem er hvað mest spennandi til víngerðar er Muscat á Blanc á Petits Grains eða Muscat de Frontignan eins og hún er einnig kölluð (hvítvínsþrúga).

Muscatvínviðurinn er líklega sá elsti sem menn þekkja og jafnvel er talið að öll Vitis vinifera-ættin sé af honum kominn. Hún er ræktuð um allan heim en á uppruna sinn við Miðjarðarhafið þar sem þekktustu vínin eru t.d. Frontignan, St.-Jean de Minervois og Rivesaltes. Hún er einnig uppistaðan í Muscat de Beaumes-de-Venise og hér á landi kannast menn e.t.v. best við hana í Asti-freyðivíninu frá Ítalíu.

Nebbiolo

Þrátt fyrir mikil gæði er þessi rauða þrúga nánast óþekkt utan lítils hluta Norður-Ítalíu þar sem hún er notuð til gerðar á einhverjum tannískustu vínum sem þekkjast, Barolo og Barbaresco. Þótt nokkrir víngerðarmenn hafi á síðasta áratug gert tilraunir til að framleiða vín úr þeim, sem hægt er að njóta í æsku hefur það varla tekist og enn eru bestu vínin úr henni að ná hápunkti sínum um og eftir tvítugt. Hefur eitt hæsta innihald af tanníni, sýru og þurrefni sem þekkist meðal vínþrúgna og þarf löng og heit haust til að ná þeim þroska sem er ákjósanlegur. Litsterk, eða nánast ógegnsæ, minna þau gjarnan á tjöru, bæði í útliti og ilmi en í góðum árum er einnig mikill ávöxtur undir niðri.

 

Palomino

Þetta er þrúgan sem gefur af sér það hvítvín sem verður að sérríi með sérstakri meðhöndlun. Þótt hún sé víða ræktuð í heiminum til þess að gera eftirlíkingar af sérríi hefur engum tekist að líkja eftir því svo vel sé.  Í raun er þetta þrúga sem víðast hvar er, í besta falli, meinlaus og lítið spennandi en í basískum kalkjarðveginum við Jerez getur hún gefið af sér vín sem eru með þeim skemmtilegustu í heiminum. Það er þó oftar en ekki sjálf víngerðin sem þar ræður úrslitum frekar en að það sé þrúgan í sinni upprunalegustu mynd sem leikur stærsta hlutverkið.

 

Petit Verdot

Þetta er ein fimm rauðra þrúgna sem leyfð er í Bordeaux en ræktun hennar hefur verið á undanhaldi síðustu áratugi. Er bæði tannísk, litsterk og gefur af sér vín sem eru með mikið áfengi og kryddaðan ilm. Mjög erfið í ræktun þar sem hún þroskast síðust þrúgna í Bordeaux og í sumum árum þroskast hún alls ekki. Skilar þar að auki mjög ójafnri uppskeru sem fælir marga frá ræktun. Á síðustu árum má þó greina tilhneigingu hjá vönduðum framleiðendum að endurvekja Petit Verdot í vínblöndur sínar.

Pinot Blanc

Ein fjölmargra þrúgna af Pinot-fjölskyldunni og var eitt sinn kölluð Pinot-Chardonnay. Nær mestum gæðum á kaldtempruðum vínræktarsvæðum og er líklega hvað best í Elsass þar sem úr henni eru gerð þurr, sýrulítil og ögn arómatísk vín sem best eru ef þau eru drukkin ung.

Hvítvín úr henni ná tæplega sömu hæðum og nágrannar hennar, Pinot Gris og Gewürztraminer en hafa þó vissan þokka og eru sérlega heppileg með mat. Nokkuð stór hluti framleiðslunnar fer í blönduna Edelzwicker þar sem Pinot Blanc er blandað saman við sýrumeiri þrúgur eins og Silvaner og Chasselas. Vín úr Pinot Blanc eru létt og hafa lítinn ilm en í góðum árum geta þau verið bæði allsæt og krydduð. Eldast illa á flöskum.
 

Pinot Gris
(eða Tokay-Pinot Gris)

Fjarskyldur ættingi Pinot Noir og ræktuð mjög víða á meginlandi Evrópu. Á Ítalíu kallast hún Pinot Grigio og þar eru gerð úr henni frískleg og sýrumikil hvítvín. Í Þýskalandi eru ýmist gerð úr henni þurr hvítvín og kallast hún þá Grauburgunder, eða sæt, en þá nefnist þrúgan Ruländer.

Er samt líklega þekktust sem Tokay-Pinot Gris í Alsace þar sem hún gefur af sér þung, bragðmikil en jafnframt þurr hvítvín með auðþekkjanlegum sérkennum. Ekki má þó lengur kalla vín úr henni Tokay til að rugla ekki saman við hið þekkta, sæta hvítvín frá Ungverjalandi, Tokaij, sem reyndar er gert úr allt annarri þrúgu.

 

Pinot Meunier

Líkt og Cabernet Franc stendur í skugganum af nafna sínum Sauvignon þá stendur rauða þrúgan Pinot Meunier í skugganum af bróður sínum Pinot Noir. Leikur lykilhlutverkið í Champagne þar sem hún er útbreiddasta þrúgan og er næstum helmingur af landi undir vínvið þar með Pinot Meunier. Hún hefur þann kost að blómgast seinna en Pinot Noir, þola betur frost og gefa meira af sér.  Hún hefur hærra sykurinnihald en minna alkohól en bæði Chardonnay og Pinot Noir og því mikið notuð í kampavín sem drekka á ung. Ekki mikið ræktuð utan Champagne en hefur þó staðið sig vel í Ástralíu og tilraunir til að rækta hana til freyðivínsgerðar í Kaliforníu eru hafnar.
 

Pinot Noir

Um Pinot Noir gengur sú saga að hún sé einstaklega erfið þrúga sem einungis nokkrum sinnum á öld skilar því sem ætlast er til af henni en þegar það kraftaverk gerist, gleymist öll fyrirhöfnin sem í hana er lögð. Hin rauða einkennisþrúga Búrgundarhéraðs og öfugt við Chardonnay, sem virðist hvarvetna geta skotið góðum rótum, þá hefur varla tekist að rækta Pinot Noir annars staðar. Sennilega höfuð Pinot-ættkvíslarinnar en úrkynjast mjög hratt og er vandamál hvað plönturnar lifa stuttan tíma. Geysilega erfið í ræktun og herja margir sjúkdómar á plöntuna jafnframt sem hún blómgast snemma og er því mjög hætt við frosti en tilraunir til að rækta hana í heitara loftslagi skila engan veginn sömu gæðum og vín frá Búrgúnd. Kemur í mörgum dulargervum, stundum litsterk og tannínmikil en stundum þunn og auðdrekkanleg.

Pinot Noir er ein af þrúgunum sem notaðar eru til kampavínsgerðar. Í sérstökum árum getur hún gefið af sér bestu vín sem framleidd eru í heiminum. Tilraunir með ræktun í Oregon og Washington lofa þó góðu um að hægt sé að fá a.m.k. stóran hluta af gæðum hennar fram, utan Búrgundar.

 

Pinotage

Frægasti kynblendingur Suður-Afríku og einn af þeim þekktari í heiminum.  Var búinn til með því að para saman Pinot Noir og Cinsaut en þá tengdu menn, ranglega, Cinsaut við Hermitage. Rauð þrúga sem er auðveld í ræktun og nær háu sykurmagni og hefur gott viðnám við sjúkdómum. Hún skilar þó ekki miklu magni af sér en hefur meðalfyllingu, yfirleitt djúpan lit og getur undir bestu kringumstæðum elst vel. Þó eru gæðin mjög breytileg eftir framleiðendum og vegna lítillar uppskeru er tilhneiging til að offramleiða hana. Hefur breiðst út til Kaliforníu og Nýja-Sjálands.

Riesling

Besta hvíta þrúga sem ræktuð er í Þýskalandi og um þessar mundir, stórlega vanmetin. Hefur einstaklega gott jafnvægi á milli sýru, ávaxtar og alkohóls og, sem dæmi um gæði hennar, getur hún verið þurr og alkaholrík, eins og í Elsass, hálfsæt og ávaxtarík, eins og í Þýskalandi eða eðalmygluð og dísæt bæði í Elsass og Þýskalandi. Mikið ræktuð í Ástralíu, Washington, Austurríki og Suður-Afríku en nær sér best á strik í kaldtempruðu loftslagi og þarf ekki mikið alkohól til að ná fram miklum gæðum, ólíkt Chardonnay.

Ilmar gjarnan af þroskuðum eplum, blómum og hunangi og vel þroskuð getur hún jafnvel fengið yfir sig blæ af steinolíu. Nafnið hefur verið misnotað um allan heim þar sem reynt hefur verið að bæta ímynd margra lítt spennandi þrúgna með því að kenna þær við Riesling. Er eitt langlífasta vín sem gert er og dæmi um að það hafi enst í meir en tvær aldir.

 

Sangiovese

Sangiovese er gott dæmi um hversu vel þarf að hirða um og rækta þrúgur til að gera gott vín. Ræktuð um mestalla Mið- og Norður-Ítalíu og er sennilega þekktust í Chianti og Brunello di Montalcino. Til eru margir og mismunandi klónar af henni og gefa þeir af sér rauðvín sem eru allt frá því að vera þunn og málmkennd til þess að vera barmafull af heitum ávexti með möguleika á að þroskast í áratugi.

Í Chianti Classico, þar sem Sangiovese verður að vera 75-90% af heildarmagninu, er hún gjarnan blönduð með öðrum þrúgum, jafnvel hvítum, til að mýkja hana örlítið niður. Athygli hefur vakið hvað blanda af Cabernet Sauvignon og Sangiovese hefur mikla möguleika á að verða gæðavín og þekktustu dæmin um slíkt eru Tignanello og Sassicaia.

 

Sauvignon Blanc

Sauvignon Blanc er, um þessar mundir, líklega vinsælasta hvíta tískuþrúga heimsins á eftir Chardonnay og er, eins og hún, upprunnin í Frakklandi. Þekktust er hún sem þurr og sýrumikil þrúga í Sancerre og bragðmikil og krydduð í Bordeaux, þar sem hún er ætíð blönduð við Semillion.

Í Kaliforníu og Ástralíu er hún gjarnan mikið eikuð og nefnist þá stundum Fumé Blanc en nær sennilega mestu gæðum á Nýja-Sjálandi þar sem hún virðist henta sérlega vel bæði eldfjallajarðvegi og tempruðu loftslagi eyjanna. Vín úr Sauvignon Blanc eru auðþekkjanleg á bæði ilm og bragði og henta vel með léttum og frísklegum mat.

 

Semillion

Ein helsta hvítvínsþrúgan í Bordeaux þar sem hún er blönduð Sauvignon Blanc til að gera bragðmikil, eikuð og þurr hvítvín. Hún hneigist þó einnig til að sýkjast af eðalmyglunni, Botrytis cinerea, og verða þannig undirstaðan í sætum hvítvínum frá Sauternes og Barsac.

Er ræktuð víða um heim en er gjarnan þunglamaleg og bragðlítil þar sem hún er ræktuð í of heitu loftslagi. Þó geta vín úr Semillion orðið býsna góð í Hunter Valley í Ástralíu. Tekur yfirleitt vel út þroska í eikartunnum og er oftast nær notuð með öðrum þrúgum og ljær blönduðum vínum bæði mýkt og alkohól.

 

Silvaner

Á fyrri helming tuttugustu aldarinnar var þessi hvíta þrúga sú mest ræktaða í Þýskalandi en hefur nú orðið að lúta í lægra haldi fyrir Müller-Thurgau. Er í raun ekki ósvipuð í uppbyggingu og Sauvignon Blanc, þ.e. hún er fyrst og fremst sýrumikil þrúga með meðalfyllingu en ólíkt Sauvignon Blanc þá hefur hún mjög lítinn og lokaðan ilm og hefur ekki náð vinsældum neytenda.

Mest af henni er ræktað í Rheinhessen þar sem oft getur verið erfitt að fá Riesling til að þroskast vel. Hún er einnig ræktuð í Elsass þar sem hún skilar alla jafna mestum gæðum og úr henni koma vín sem bæði hafa fyllingu og kryddað bragð. Ekki mikið ræktuð annars staðar í heiminum.

Syrah (eða Shiraz)

Syrah gefur af sér langlíf og stórkostleg vín nyrst í Rónárdalnum þar sem Hermitage og Cote-Rotie eru órækur vitnisburður um getu þessarar rauðvínsþrúgu. Í góðum árum jafnast ekkert á við hana nema Cabernetblöndur frá Bordeaux. Henni er stundum líkt við Nebbiolo í æsku enda eru vín úr henni gegnheil og tannísk en undanfarin ár hafa neytendur fengið nútímalegri og auðdrekkanlegri útgáfur af þessari þrúgu og þá aðallega frá Ástralíu þar sem hún er ræktuð á um 40% þess lands sem fer undir rauðar þrúgur.

Er jafnvel auðveldari í ræktun en Cabernet Sauvignon en öllu erfiðara að gera úr henni gæðavín. Ræktun hennar er víðast hvar á uppleið í heiminum og þá aðallega í Rónardalnum sunnanverðum og á Midi-svæðinu en Ástralar hafa þó tekið forskotið með frábærum vínum á borð við Grange.

Tempranillo

Tempranillo er helsta gæðaþrúga Norður-Spánar og er Riojahéraðið hvað skýrasta dæmið um getu þessarar rauðu þrúgu til að gefa af sér vín í sérflokki.  Ekki er vitað um tilurð hennar en líklegast er að hún sé einfaldlega upprunnin á þeim sömu slóðum þótt menn hafi reynt að ættfæra hana upp á Pinot Noir. Vín af Tempranillo eru gjarnan lág í áfengi og sýru en hafa mikinn, stöðugan lit og bragð þannig að ætíð verður að blanda hana fleiri þrúgum til að fá dæmigert Riojavín, þá helst Garnacha Tinta og Graciano. 

Hún er lítið ræktuð utan Norður-Spánar en leikur þó veigamikið hlutverk í Douro-dalnum þar sem hún er notuð í gerð púrtvína.

Touriga Nacional

Þótt margar þrúgnategundir séu hafðar til púrtvínsgerðar eru flestir sammála um að sú sem nær mestum hæðum sé hin rauða Touriga Nacional. Berin sjálf eru óvenju lítil og plantan gefur oft ekki meira af sér en um 300 grömm af þrúgum. Hún hefur mjög þykkt hýði og hátt sykurinnhald sem skýrir hversu heppileg hún er til púrtvínsgerðar.

Þótt heldur hafi dregið úr ræktun hennar á síðustu árum er hún enn mikilvæg víða í Portúgal þar sem hún er m.a. verið notuð til hefðbundinnar rauðvínsgerðar, t.d. í Dao þar sem hún þarf að vera a.m.k. 20% blöndunnar. Er lítið ræktuð utan Portúgals en er þó í nokkrum metum í Ástralíu, þar sem hún er notuð til að gera púrtvínslíki.

 

Trebbiano (eða Ugni Blanc)

Þótt Airén, Garnacha og Rkatsiteli séu ræktaðar á stærra svæði á jörðinni er sennilega engin þrúga sem gefur jafnmikið af sér á hverju ári.  Upprunnin á Ítalíu og sú þrúga sem er hvað mest ræktuð þar og, þökk sé stöðugt meiri ræktun í Charente, er hún nú að verða sú mest ræktaða í Frakklandi einnig.

Þar er hún þekkt undir nafninu Ugni Blanc og er meginuppistaðan í hvítvínum, sem ræktuð eru til að eima og framleiða bæði koníak og armaníak. Einstaklega auðveld í ræktun og líklega er engin þrúga sem gefur jafnmikið af sér á hvern hektara. Flest ef ekki öll hvítvín frá Norður- og Vestur-Ítalíu eru annaðhvort hrein Trebbianovín eða a.m.k. að stærstum hluta. Í raun einstaklega lítilfjörleg þrúga sem er mest ræktuð til iðnaðranota út um allan heim.

Viogner

Miðað við hvað lítið fer af landi undir ræktun á þessari hvítu þrúgu, eða einungis um 40 hektarar á heimsvísu, er ótrúlegt hvað hún er víðkunn.  Nánast öll framleiðslan í heiminum er bundin við nyrsta hluta Rónardalsins á svæðunum Côte Rôtie, Condrieu og Chateau-Grillet.

Fyrst og fremst gefur hún af sér bragðmikil og gyllt vín með ilm sem minnir á ferskar apríkósur, ferskjur og þroskaðar perur. Þó eru vínin ótrúlega mjúk og sýrulítil og hafa litla burði til að eldast þótt dæmi séu um allt að 50 ára gömul vín sem hafa haldið fyllingunni. Töluvert af framleiðslunni fer í að blanda út í Shyrah-rauðvín sem ræktuð eru í Côte Rôtie til að mýkja þau, þar sem allt að 20% af rauðvíninu má í raun vera Viognier. Á síðustu árum hefur ræktunin verið að breiðast út í Languedoc og í Kaliforníu.

Viura

Með nútímalegri víngerðartækni hefur ræktun á hvítu þrúgunni Viura (eða Macabeo eins og hún nefnist einnig) aukist til muna í Rioja, þar sem hún hefur nánast leyst alveg af hólmi þrúgur eins og Malvasia og Garnacha Blanca. Hún hefur það fram yfir þær að ganga ekki eins auðveldlega í samband við súrefni og, rétt meðhöndluð, getur hún gefið af sér ávaxtarík og þokkafull vín sem eru best ef þau eru drukkin áður en þau verða ársgömul.

Er einnig yfirleitt minnihluti af vínblöndu sem er í Cava-freyðivíni á Norðaustur-Spáni ásamt þrúgunum Xarello og Parellada. Algeng á Norður-Spáni en lítið þekkt utan Spánar þótt eitthvað sé notað í einföld borðvín í Roussillon í Frakklandi.

Zinfandel

Zinfandel er kamelljón vínþrúgnanna og hefur ótrúlega fjölbreyttar birtingarmyndir, allt frá þurrum hvítvínum og hálfsætum rósavínum til þéttra og litdjúpra rauðvína. Talin eina upprunalega Kaliforníuþrúgan en menn greinir á um hvaðan hún kemur, þó líklega frá ströndum Adríahafsins.

Við réttar aðstæður gefur hún af sér vín sem standast hvaða samanburð sem er en það er ekki fyrr en á síðustu árum að Bandaríkjamenn hafa veitt henni þá athygli sem hún á skilið. Vín úr Zinfandel er oftast með töluvert alkohólinnihald, ilm- og bragðmikil með keim af sveskjum og öðrum þurrkuðum ávöxtum.