Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Ársskýrsla ÁTVR 2016

21.03.2017

Ársskýrsla ÁTVR 2016 er komin út, annað árið í rafrænu formi.  Í skýrslunni má finna ítarlegar upplýsingar um starfsemi, rekstur og sundurliðanir á sölu áfengis og tóbaks. Hér má nálgast skýrsluna í heild sinni

Hagnaður ÁTVR var 1.629 m.kr. í samanburði við 1.221 m.kr. árið 2015. Rekstrartekjur ársins voru 33.058 m.kr. Rekstrargjöld námu 31.438 m.kr. Þar af var vörunotkun 28.037 m.kr. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 1.842 m.kr. eða 5,6% miðað við 4,8% á fyrra ári. Arðsemi eiginfjár á árinu var 38,8%.

Tekjur af sölu áfengis voru 23.646 m.kr. og tekjur af sölu tóbaks voru 9.335 m.kr. Alls voru seldar um 20,9 milljónir lítra af áfengi sem er 6,4% meira magn en árið áður.  Samdráttur var í öllum flokkum tóbaks nema neftóbaki en þar jókst salan um 10,7%.

Í formála Ívars J. Arndal, forstjóra ÁTVR,  kemur fram að á síðustu átta árum hefur arðsemi eigin fjár ÁTVR verið að meðaltali um 33%. Samanlagður hagnaður þessara átta ára var 10,7 milljarðar og af þeirri upphæð fékk ríkissjóður í arð rúma 9 milljarða. Áætluð arðgreiðsla fyrir árið 2017 er 1.750 milljónir. Í töflunni hér að neðan má sjá yfirlit yfir arðsemi eigin fjár, hagnað og arðgreiðslur í ríkissjóð frá árinu 2009. Tölurnar eru í milljónum króna.

Arðgreiðslur til ríkisins og arðsemi

Jafnframt segir í formálanum að í tengslum við frumvarp um afnám einkaleyfis ÁTVR á áfengissölu sé mikilvægt að farið sé rétt með staðreyndir. Fullyrt hefur verið að starfsemi ÁTVR sé óhagkvæm fyrir ríkissjóð. Hið rétta er að stofnunin er B-hluta stofnun með sjálfstæðan fjárhag þar sem álagning stendur undir öllum kostnaði og arðgreiðslum. Samkvæmt lögum er ÁTVR rekin sem ein heild og ljóst að samlegðaráhrif af rekstrinum eru mikil. Af uppgjöri ársins má með einföldum hætti sjá að framlegðin af sölu áfengis nægir fyrir öllum rekstrarkostnaði bæði áfengis og tóbaks. Fullyrðingar um að hagnaður af tóbakssölu sé notaður til að niðurgreiða áfengið eiga því ekki við rök að styðjast. Af afkomutölunum  hér að ofan má líka sjá að fullyrðingar um að rekstur ÁTVR sé ekki þjóðhagslega hagkvæmur eiga ekki heldur við rök að styðjast.