Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Páskabjórinn 2017

04.04.2017

Sú hefð hefur skapast í bjórmenningu Íslands að árstíðabundnir bjórar, sem aðeins eru seldir í skamman tíma, verða sífellt fleiri.
Páskabjór hefur verið fastur liður undanfarin ár líkt og jólabjórinn.  Þetta árið eru ellefu tegundir í boði og er úrvalið nokkuð breitt og spennandi.  Bjórarnir eru allt frá því að vera lagerbjórar í léttari kantinum, upp í að vera kraftaboltar, öl í belgískum stíl. Í ár erum við einnig með klassískan hveitibjór og „double bock“.
Pásakbjórarnir í ár eru: 


•    Víking Páskabjór
•    Tuborg Kylle Kylle Páskabjór
•    Föroya Páskabryggj
•    Páskakaldi 
•    Steðji Páskaöl
•    Harboe Påskebryg
•    Víking Double Bock
•    Páskagull Hefeweizen
•    Júdas Quadrupel nr. 16.1
•    Ölvisholt OMG Súkkulaðiporter
•    Segull 67 Hérastubbur páskabjór


Ef við rennum létt yfir þessa bjóra þá má eiginlega segja að fyrstu sex séu svona næst því sem kallast gæti klassískur páskabjór, ef slíkt er þá yfirleitt til.  
En lítum þá aðeins á næstu bjóra á listanum.  Þar er að finna einn double bock, en þar er á ferðinni lagerbjór með ekstra mikla fyllingu og hærra áfengisinnihald. Næst erum við með hveitibjór í þýska stílnum, sem kallast „hefeweizen“.  Slíkur bjór er þekktur fyrir sítrustónað bragð og skemmtilega ávaxta- og kryddtóna.  Quadrupel er síðan stíll sem er þekktur í Belgíu, hinu virta bjórgerðarlandi.  Þetta er öl sem er með mikla, sætkennda fyllingu, sem er síðan stemmd af og tónuð niður með ferskri humlaflóru.  Súkkulaðiporter er einnig með í ferð þetta árið, en það er porter með súkkulaðitónum auk hinna sívinsælu portertóna.  Að lokum er svo að benda á ljóst öl sem kennt er við fræga leikhússfígúru.
Af ofansögðu má ljóst vera að úr nokkuð skemmtilegu úrvali páskabjóra er að velja þetta árið.  Þar er klassíkin í meirihluta, en fyrir þá sem hafa gaman af því að smakka eitthvað nýtt, þá er það til líka. Í vöruleitinni er hægt að finna allt það úrval af páskabjór sem til er á hverjum tíma og í hvaða Vínbúðum þeir fást. 

Gleðilega páska!

Gissur Kristinsson vínráðgjafi
Gissur Kristinsson
vínráðgjafi