Fínleiki og fágun

13.03.2017

Nýja Sjáland eins og flestir vita er afskekkt eyja í suðvesturhluta Kyrrahafsins um 1.500 km austan við Ástralíu.  Megnhluti ríkisins samanstendur af tveimur eyjum, Norðurey og Suðurey, ásamt smærri eyjum.  Landslagið einkennist af samblöndu landriss og eldvirkni og er því landfræðilega nokkuð fjölbreytt.  

Nútímavínræktun á Nýja Sjálandi má rekja aftur til Bretans James Busby sem gerði vín á Norðureyju í kringum árið 1840.  Hins vegar byrjuðu hjólin ekki að snúast fyrr en árið 1973 þegar þeir gróðursettu Sauvignon Blanc vínvið í Wairau dalnum í Marlborough á Suðurey.  Þangað til hafði vínrækt aðallega farið fram á Norðureyju, þá helst í Hawke's Bay og Gisborne.  Þessi vín úr Sauvignon Blanc náðu fljótt mikilli hylli á milli 1980-1990 og eru enn þann dag í dag aðaleinkenni víngerðar í landinu.

Þeir eru þó þekktir fyrir margt annað en flott vín úr Sauvignon Blanc.  Nýsjálendingar hafa í raun náð alveg ótrúlegum árangri á stuttum tíma í framleiðslu vína úr alþjóðlegum þrúgum á borð við Chardonnay, Pinot Gris, Riesling, Merlot, Cabernet Sauvignon, Syrah og Pinot Noir.

Þau svæði sem eru þekktust í dag eru Marlborough með einkennarík Sauvignon Blanc og Pinot Noir, Wairarapa (Martinborough) sem er að verða þekktari með hverju árinu fyrir hörkuflott Pinot Noir,  Hawke's Bay (sérstaklega svæðið Gimblett Gravels)  sem gera glæsilegar Bordeaux blöndur úr Merlot og Cabernet Sauvignon en eru að verða þekktari með hverju árinu fyrir flott "Rónarleg" vín úr Syrah þrúgunni og Central Otago með vín úr Pinot Noir.

Frá norðri til suðurs eru helstu vínræktunarsvæðin:

 • Northland
 • Auckland
 • Waikato
 • Bay of Plenty
 • Gisborne
 • Hawke's Bay
 • Wairarapa
 • Nelson
 • Marlborough
 • Canterbury
 • Otago

Þeir sem vilja fá þunga, tannínríka, kröftuga eikarbolta ættu að halda sig frá nýsjálenskum vínum.  Ekki misskilja, það er vel hægt að nálgast kröftug vín þaðan, en það sem einkennir þessi vín er frekar fínleiki og fágun í bland við hóflegan kraft og hreinan ávöxt.  Til þess að viðhalda þessum hreinleika tók yfirgnæfandi meirihluti vínframleiðenda á Nýja Sjálandi sig saman árið 2001 og ákváðu að loka nánast öllum sínum vínum með Stelvin skrúftöppum í stað korks. Þetta framtak var nefnt The Screwcap Initiative.  Sem betur fer er þó allur heimurinn farinn að átta sig á því að skrúftappi er alveg jafngóð lokun og vandaður korkur.


Til þess að slútta þessu, þá er margt annað gott sem kemur frá Nýja Sjálandi en bara Peter Jackson, Sam Neil og nautakjöt.  Þeir gera líka nokkuð góð vín.

Gísli Guðmundsson

vínráðgjafi