Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Tilurð rósavínsins?

Einhversstaðar í hlíðum Kákasus, vöggu vínsins, ríkti hinn goðsagnakenndi Persakonungur Djamschid fyrir um 8000 árum. Við hirð hans var borðað mikið af vínberjum sem geymd voru í stórum krukkum. Er berin í einni af krukkunum byrjuðu að gerjast var hún sett til hliðar því talið var að berin væru hættuleg, jafnvel eitruð. Óhamingjusöm kvennabúrsmær drakk af gerjuðum berjasafanum í þeim tilgangi að stytta sér aldur – en vaknaði upp með sælubros á vör. Hún hafði drukkið fyrsta vínið, og það getur ekki hafa verið annað en rósavín ...

Af einhverjum orsökum sem ég veit ekki hverjar eru, lítum við gjarnan niður á rósavínið; vínið sem veit ekki hvort það vill vera rautt eða hvítt.  Eða þá við tölum um það sem vínið sem gengur með flestu, en passar ekki með neinu.  Frá því um 1500 hefur rósavínið frá Tavel í Suður Rónardalnum verið rómað og kallað sólskin í flösku, dáð af konungum (m.a.  Louis XIV) og rithöfundum (einn þeirra var  Ernest Hemingway).

Á meðan ég fæ mér smá sólskin ætla ég að fara aðeins yfir hvernig rósavín er búið til, en eiginlega er það meira vesen en við hvítvíns- og rauðvínsframleiðslu.
Að framleiða rósavín er nefnilega alls ekki eins einfalt og að blanda saman rauðu og hvítu víni. Það kemur þó fyrir, en í flestum lögfestum upprunasvæðum innan Evrópusambandsins er það ekki leyfilegt – með sérsniðnum undantekningum fyrir rósa-kampavín. 
Í dag er rósavín venjulega gert með stuttri ílögn, þ.e. snertingu vínberjasafa við hýði af krömdum rauðum þrúgum. Þetta er gert til þess að fá eins mikið af litarefnum úr hýðinu og þarf til að ná því blæbrigði sem óskað er, sem getur verið allt frá laxableiku til rúbínrauðs. Að því loknu er hratið síað frá og víngerðin heldur áfram á sama hátt og um hvítvín væri að ræða. 

Eitt franskt tilbrigði er kallað saigné (blæðing) og felst í því að fljótlega eftir að ílagnarferlið hefst er um það bil 20% af vökvanum tappað af nýmörðum þrúgunum. Úr þessum vínberjasafa er svo gert ljóst rósavín og í kaupbæti fær víngerðarmaðurinn kjarnmeiri, þéttari lit og bragð í eftirliggjandi 80 prósentin, sem úr er gert rauðvín. 
Blöndun, örlitlu magni af rauðvíni er bætt við hvítvín til að gera hvítvín, þessi aðferð er aðeins leyfileg þegar gera á rósa-kampavín.
Ein aðferðin er sú að rauðar þrúgur eru marðar og pressaðar eins og í hvítvínsgerð til að ná tilskildum lit, þó verður að fara varlega í pressuninni til að of mikil tannín skili sér ekki í vínið.


Nú þegar hlýnar í veðri er upplagt að kynna sér rósavín, þau eru bæði sumarleg og hressandi.
Ég get svarið það, ég held bara að ég hafi tekið smá lit, svona pínu bleikan!
 

Páll Sigurðsson
vínráðgjafi

Páll Sigurðsson vínráðgjafi