Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Bjór og pizza

Líkt og bjór eru pizzur jafn fjölbreyttar og þær eru margar. Grunnur, sósa og ekki síst álegg eru afar mismunandi og því að ýmsu að huga þegar kemur að pörun pizzu og bjórs. Oftast er talað um pizzur sem frekar létta máltíð, en eins og allir áhugamenn um góða pizzu vita þá er það langt frá því algilt. Oft á tíðum eru fjölmargar mismunandi kjötafurðir settar á pizzuna, þungar sósur og svo ekki sé nú minnst á missterka osta. Allt þetta getur kallað á mismunandi bjórstíla og því ekki úr vegi að athuga hvaða reglur er gott að hafa í huga þegar kemur að því að velja sé bjór með pizzu.

Með einfaldari pizzum með léttu áleggi á borð við skinku, sveppi og ananas (já sumir vilja ananas á pizzuna sína) smellpassa flestar tegundir lagerbjóra. Léttir lite-bjórar, bragðmeiri pilsener bjórar og allt þar á milli í heimi lagerbjóra para vel saman við slíkar pizzur og einnig við þær mildu ostategundir sem þeim yfirleitt fylgja. Allir súrbjórar á borð við lambic, Gueuze, Kriek og Frambozen passa með fínlegri pizzum og þá jafnvel grænmetispizzum. Léttari hveitibjórar á borð við hinn belgíska Wit geta einnig passað vel við léttari pizzur og eins sjávarréttapizzur með ferskum, léttum ostum. Þýskur weissbier kallar á aðeins meira bragð á móti og því vel hægt að hugsa sér kjúkling sem hentugt álegg sem og hvítmygluosta. 

Pizzur með krydduðu áleggi á borð við hið vinsæla pepperoni og bragðmeiri ostum ganga vel með fjölmörgum bjórtegundum. Blonde og pale ale ganga vel með fínlega krydduðum pizzum. Hinn vinsæli India pale ale er nægilega beiskur og bragðmikill til að ráða við vel kryddaðar pizzur og þroskaða osta á pizzuna. Sterkkryddaðar pizzur þurfa hins vegar sætu til að vega upp á móti hinu sterka bragði og þar getur verið sniðugt að snúa sér að Bock-stílnum sem er kraftmikill og pínu sætur lagerbjór. Bock getur því klárlega verið svarið fyrir þá sem vilja jalapeno eða sterkar sósur á pizzuna sína.

Bragðmiklar pizzur með mörgum og fjölbreyttum kjötáleggjum, þungum sósum og bragðmiklum, þroskuðum ostum kalla á bragðmeiri og þéttari bjóra. Þyngri útgáfur af klausturbjór á borð við tripel og quadrupel eiga vel við sem og þéttir porter og stout bjórar. Séu þeir einnig með smá sætu í sér má hugsa sér sterkkryddaðar pizzur í bland við margar kjötáleggstegundir. Óhætt er að bæta við vel þroskuðum ostum og þá jafnvel gráðaosti. Eigi maður margslunginn og þéttan bjór er því vel við hæfi að pizzan sé margslungin líka.

Það er því ljóst að pizzur leyna á sér og bjóða upp á fjölbreyttar samsetningar matar og bjórs. Því er um að gera að skoða allar þær pizzur sem í boði eru á pizzastöðunum, nú eða bara baka sjálfur heima og prufa með öllum þeim úrvalsbjórum sem eru í boði í Vínbúðum landsins. 

Verði ykkur að góðu!

Pétur Fannberg Víglundsson
vínráðgjafi

Pétur Fannberg Víglundsson vínráðgjafi