Slow Wine

Slow Food er tiltölulega nýlegt fyrirbæri fyrir okkur Íslendinga, enda kannski ekki svo langt síðan skyndibitamatur varð áberandi hér landi, þrátt fyrir að pylsurnar hafi svo að segja verið samofnar við þjóðarsálina í þó nokkra áratugi. 

Slow Food hreyfingin á uppruna sinn að rekja til Ítalíu á 9. áratug síðustu aldar þegar bylgja skyndibitakeðja fór að hefja innreið sína í gamalgróna matarmenningu Ítala. Upphafsmaður og stofnandi samtakanna Carlo Petrini, blaðamaður, rithöfundur og sælkeri með meiru, sá strax að spyrna þyrfti við þeim farvegi að matarmenning flettist út og yrði almenn. Það að hægt væri að fá sama matinn hvar sem er í heiminum og að hann bragðaðist eins var þróun sem þótti ekki "bragðgóð". Þessi sýn varð það fræ sem hugmyndin að Slow Food samtökunum, sem eru orðin að heimssamtökum í dag, spratt upp af. Carlo Petrini er einn ötulasti talsmaður sjálfbærni matvæla, matvælaframleiðslu, landbúnaðar og síðast, en ekki síst, matargerðarlistar. Hann hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín og er vel þekktur um allan heim (á sviði Slow food). Vegna uppruna þessara samtaka eru flest vín sem framleidd eru með þessa hugmyndafræði í grunninn frá Ítalíu, þó svo að sá hugsunarháttur sem Slow Wine stendur fyrir sé víðar til staðar.

Til að gera langa sögu stutta þá er virkni hugmyndarinnar um Slow Wine eins og Slow Food; sem viðspyrna við massaframleiðslu á vínum. Þessi hugmyndafræði byggir á því að vín, líkt og matur, eigi ekki bara að vera gott, heldur einnig sanngjarnt (e. fair) og ómengað (e. clean). Vín er landbúnaðarafurð og hefur áhrif bæði á umhverfi og þá sem starfa í greininni. Framleiðendur innan Slow Wine eru að öllu jöfnu litlir, nota oftar en ekki hefðbundnar framleiðsluaðferðir í sátt og samlyndi við náttúruna og umhverfið. Í þessu samhengi skipta einnig staðsetning og saga máli fyrir þann sem framleiðir, en ekki síður fyrir þann sem neytir því að baki hverrar flösku liggur einhver saga. Það er því mikilvægt að sá sem ætlar að framleiða vín samkvæmt Slow Wine búi yfir yfirgripsmikilli þekkingu á öllum sviðum vínræktarinnar.  Hugmyndafræðin á um margt skylt við hugtak innan vínfræðanna, sem hefur verið tekið upp úr frönsku, og kallast terroir

Margir framleiðendanna eru með vottun fyrir lífræna og/eða bíódýnamíska framleiðslu en það er þó ekki endilega krafan að vínið þurfa að vera framleitt með þeim hætti, þrátt fyrir að það sé skilgreint og framleitt samkvæmt hugmyndafræði Slow Wine. Hugmyndafræðin tekur líka líffræðilegan fjölbreytileika (e. biodiversity) til greina og skiptir þá máli að varðveittar séu til dæmis staðbundnar þrúgur eða framleiðsluaðferðir sem skila sér áfram í þekkingu til komandi kynslóða, en meðal annars þannig stuðla samtökin að sjálfbærum landbúnaði.

Framleiðendur leggja metnað sinn í að skila hugsjón Slow Wine alla leið í vínflöskuna. Þegar framleiðendur hafa lagt kappkost á alla vinnuna við að gera gott, sanngjarnt og ómengað vín, þá verður krafan fyrir neytandann óneitanlega að njóta og upplifa gæði vínsins með því að gefa sér tíma til að neyta þess og komast að því hvaða saga leynist í vínglasinu.

 

Fyrir áhugasama, þá verður Carlo Petrini með fyrirlestur á Háskólatorgi (HT - 101) þann 23. maí kl.  13:30. Hér er hlekkur á Facebook viðburð.

Rósavín