Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Bjór í matargerð

Vín í matargerð er eitthvað sem flestir þekkja, hvort sem er til að sjóða upp úr, í sósuna, marineringu eða slíkt, en einhverra hluta vegna nota færri bjór í matargerð.

Það er mjög sniðugt að nota bjór til að meyra kjöt, en þar sem sýrustig bjórs er lægra en víns, brýtur bjórinn vöðvann ekki niður eins hratt og vínið. Bjór gefur matnum einnig góðan kryddkeim og eykur á fyllingu sósunnar og þéttleika. Auðvitað er ekki sama hvaða bjór maður notar, en bragðmikill bjór gefur meira bragð, humlaríkur bjór gefur meira krydd, dekkri bjór gefur meiri hnetu-, súkkulaði- og/eða lakkrískeim.

Klassískt dæmi um notkun bjórs í eldamennsku er „dósakjúklingur“, þar sem hálffull bjórdós er sett í afturendann á kjúklingnum og hann látinn standa, með aðstoð dósarinnar, á grillinu. Maður finnur ekki fyrir bjórbragði af kjúklingnum, en
bragð og áferðarmunurinn á dósakjúlla og venjulegum er samt augljós. Marinering úr dökkum bjór, eða jafnvel reyktum bjór, með lauk, hvítlauk, limesafa, smá púðursykri, tabasco og broddkúmeni, er eitthvað sem allir grillunnendur ættu að prófa.

Svo má líka nota bjór í eftirrétti! Bjór er  hægt að nota í baksturinn, hvort sem er í kökur eða smákökur, og sumir hafa verið
að prófa sig áfram með ís og bjór, en þá er hvort sem er hægt að nota bjórinn í ísgerðina eða ís útí bjórinn (e: beer float).
Enn og aftur skiptir máli hvaða bjórstíll er notaður, og er um að gera að prófa sig áfram og vera ævintýragjarn.

 

MARÍNERING FYRIR FISK

  • hálfur lítri lagerbjór
  • safi úr 2-3 lime (má nota sítrónur)
  • 6 hvítlauksrif, kramin
  • 1 kubbur kjúklinga- eða fiskikraftur
  • 1 tsk worcestershire sósa
  • 1 tsk sojasósa
  • nokkrir dropar tabasco habanero sósa
  • svartur pipar eftir smekk

Blandið í skál og látið fiskinn liggja í 1 klst. Sósuna má einnig nota í matreiðsluna.

MARÍNERING FYRIR NAUT, LAMB OG GRÍS

  • hálfur lítri Porter, stout eða dubbel bjór
  • 1/4 bolli hunangs sinnep
  • 1/4 bolli canola olía (fremur bragðlítil)
  • 1 tsk sjávarsalt
  • 1 tsk svartur pipar, nýmalaður
  • 1 laukur, þunnt skorinn
  • 1/2 græn eða rauð paprika (eftir smekk)
  • 4 hvítlauksrif, kramin
  • 4-5 greinar ferskar kryddjurtir (basilika, timjan, rósmarín)
  • Ferskt engifer, rifið eða sneitt, úr bita á stærð við stóran sykurmola
  • nett búnt graslaukur, saxaður
  • 1 msk paprikukrydd
  • 1 msk garam masala kryddblanda

Blandið bjór, sinnepi, olíu og salti í skál og hrærið í til að leysa upp saltið, áður en öðru er bætt út í. Látið kjötið liggja í
maríneringunni í nokkra klukkutíma (til dæmis frá hádegi ef skal nota um kvöldið).

„BEER FLOAT“
Grunnhugmyndin er að setja væna ískúlu í bjórglas og fylla upp með bjór og um að gera að prófa mismunandi tegundir (hversu margar tegundir af bjór og ís eru til?)

Hætt er við að bragðmikill ís kæfi léttan bjór. Dökkur bjór og súkkulaðiís gæti verið of mikið fyrir suma, því getur verið betra
að hafa dökkan bjór og vanilluís með súkkulaðibitum. Gaman getur verið að nota bragðbætt sýróp (kaffisýróp), en margar bragðtegundir af sýrópi eru til.

 

Setjið ca. einn þriðja bjórsins í glasið, hrærið smá sýrópi saman við, setjið ískúluna í glasið, fyllið upp með bjór.

Maggi vínráðgjafi

Magnús Traustason, Vínráðgjafi
Úr Vínblaðinu (3.tbl.7.árg)