Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

TAPAS

Tapasréttir hafa notið vaxandi vinsælda á Íslandi undanfarin ár. Við fórum í  heimsókn á Tapasbarinn á Vesturgötunni og fengum uppskriftir og sögu  Tapas frá matreiðslumönnunum Bjarka Frey Gunnlaugss. og Martin Sappia frá Argentínu.

Tapas þýðir í raun lok og á Suður-Spáni segir sagan að diskur hafi verið settur ofaná glasið sem lok til að halda flugum frá víninu (sem var oft í sætara lagi) og smám saman þróaðist þetta til að smáréttir voru látnir fylgja með á disknum. Önnur skýring er sú að Alfonso X konungur hafi jafnað sig eftir veikindi með því að fá sér vín og smárétti saman sem smám saman varð að Tapashefð.

Martin Sappia og Bjarki Freyr Gunnlaugsson
Á mynd: Bjarki Freyr og Martin Sappia á Tapas barnum

Hver sem skýringin er þá er Tapas  geysivinsælt víða um heim og ekki til sá bar eða veitingahús á Spáni sem ekki býður uppá Tapas. Réttirnir geta verið heitir, kaldir, grillaðir eða steiktir en eru iðulega smáréttir. Á Norður-Spáni kallast þessir smáréttir oft Pinchos og eru bornir fram á spjótum eða litlum pinnum. Vínið sem Spánverjar nota með Tapas þá sérstaklega á Suður-Spáni er Sherry Fino eða þurrt kælt Sherry en Íslendingar eru tregir að tileinka sér þann stíl en kælt þurrt Sherry  passar einstaklega vel með Tapas. Einnig er létt rauðvín Crianza eða gott hvítvín gjarnan frá Spáni góður kostur með réttunum. Þeir félagar voru svo vinsamlegir að láta okkur fá nokkrar uppskriftir að vinsælustu Tapasréttum sínum.

 

 

Saltfiskur með chorisdöðlumauki

Saltfiskur með chorisdöðlumauki

  • Chorizo tómatdöðlumauk
  • 500 gr hakkaðir tómatar
  • 350 gr döðlur
  • 2 rif hvítlaukur
  • 50 gr Chorizo
  • 2 stk. garðablóðberg greinar
  • 3 dl rauðvín
  • Salt og pipar

Aðferð:
Allt hráefnið er sett í pott og soðið við vægan hita í 2 klst. Að því loknu er sósan maukuð með töfrasprota og smökkuð til með salti og pipar.

 

Grilluð nautalund

Grilluð nautalund með Basil Pestó

  • Basil pestó
  • 2 búnt ferskur basil
  • 1 búnt fersk steinselja
  • 200 gr furuhnetur
  • 100 gr Parmesan ostur
  • Safinn úr 2 stk. lime
  • 2 dl jurtaolía
  • Maldon salt og grófmulinn pipar

Aðferð:
Hluti af nautalund er grillaður (að smekk). Kryddjurtirnar eru maukaðar í matvinnsluvél, olíunni og limesafanum bætt við. Næst er parmesan ostinum og furuhnetunum bætt við, en passa skal að mauka ekki of mikið, grófari áferð er fallegri áferð. Smakkað til með Maldon salti og grófmuldum pipar.

 

Kengúra á sanfainabeði

Kengúra á sanfainabeði

  • Sanfaina
  • 1 stk Butternut squash eða sæt kartafla
  • 1 stk eggaldin
  • 2 stk rauðlaukur
  • 3 stk rauð paprika
  • 1 stk kúrbítur
  • 1 dós hakkaðir tómatar
  • 1 msk kjúklingakraftur
  • Hvítlauksolía
  • Ferskt oregano
  • Ferskur basil
  • Salt og pipar

Aðferð:
Grænmetið er skorið í grófa strimla og sett á olíuborna ofnskúffu inn í ofn við 160˚C í 15 mínútur. Hrært upp með kryddjurtunum tómötunum og smakkað til með kjúklingakrafti, salti og pipar. Bakað aftur við sama hita í sama tíma. Skreytt  með rósmarinkvisti.

 

Risarækja

Risarækja á spjóti með middle east sósu

  • Middle East sósa
  • 1 stk engiferrót
  • 2 msk hvítlauksolía
  • 2 msk hunang
  • 3 msk grófkorna sinnep
  • 1 stk Chilli pipar
  • Hnífsoddur af karrí
  • 2 msk hvítvínsedik
  • 1 búnt steinselja
  • 4 dl jurtaolía
  • Salt og pipar

Aðferð:
Risarækjan skelflett og þrædd uppá lítil spjót og steikt á pönnu (grilluð), krydduð með salti og pipar. Engiferrótin er skorin í skífur þvert á þræðina. Allt hráefnið nema olían er maukað vel í matvinnsluvél. Sósan er þykkt með því hella olíunni hægt og rólega út í gangandi matvinnsluvélina í örþunnri bunu. Smakkað til með salti og pipar.