Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Riesling- ilmrík og yndisleg

Riesling þrúgan hefur, ásamt Chardonnay, verið álitin ein besta hvítvínsþrúga heimsins. Þrátt fyrir að vera marglofuð af vínáhugamönnum og víngerðarmönnum hafa vín úr þrúgunni ekki náð hylli hins almenna neytanda. Ástæðan kann að vera að í vöruúrvali Vínbúðarinnar hefur mest borið á hálfsætum vínum úr Riesling og þar með hafi þessi góðu hvítvín fengið þá ímynd að Riesling væri bara sætt hvítvín.  Af þessum ástæðum ætla ég að leitast við að fá ykkur til að ná annari sýn á vín gerð úr Riesling.
Riesling þrúgan gefur af sér fersk, jafnvel sýrurík og flókin vín. Þetta er ein af fáum þrúgum, sem hægt er að gera úr jafnt frábær sætvín sem ósæt. Þegar Riesling-vínin sýna sitt besta eru þau með ferska sýru, safarík, blómleg, jarðefnakennd og með gott sambland af léttleika og krafti. Næstum alltaf má finna ilm og bragð af sítrus, eplum, blómum og hunangi. Einnig koma upp ávextir eins og ferskjur og apríkósur. Olíukeimur sem oft er áberandi, kemur yfirleitt með aldrinum, en þó eru til vín sem fá þennan karakter strax.


Fá hvítvín henta jafn vel og Riesling við allskyns tækifæri þar sem fólk kemur saman. Hálfsæt Riesling eru frábær með léttu spjalli þar sem alvara lífsins er ekki að þvælast of mikið fyrir. Þessu til viðbótar eru vín úr þessari þrúgu frábær matarvín og henta með forréttum, aðalréttum, ostum og eftirréttum. Einnig reyktu kjöti, ljósu kjöti, fiskréttum og skelfisk. Það eru ekki margar þrúgur sem ráða við þetta allt.


Þrúgan er ræktuð á nær öllum vínræktarsvæðum Þýskalands. Áhersla er þar lögð á ferskleika vínsins, berjakeiminn og jafnvægið á milli sætleikans og sýrunnar. Flest þýsk Riesling vín í hillum Vínbúðanna eru hálfsæt, en úrvalið af ósætum Riesling hefur aukist verulega.


Riesling-vín frá Alsace eru ólík þýskum vínum. Vínin þar eru oftast ósæt, ilm og bragðmikil, feitari og alkóhólmeiri. Sem einlægur aðdáandi Alsace vína get ég fullvissað ykkur um að þessi vín, sem lýst hefur verið sem frönskum vínum með þýsku ívafi, eru frábær matarvín. Kjúklingur í Riesling er réttur frá Alsace sem vert er að prófa. 
Það er þýskum innflytjendum svo að þakka að Riesling þrúgan er einnig ræktuð í Nýja heiminum, en þeir fluttu hana með sér til Kaliforníu og eins Ástralíu.
Riesling var langvinsælasta hvítvínsþrúgan í Suður-Ástralíu áður en Chardonnay náði sínum miklu vinsældum. Ástralar hafa tileinkað sér hugmyndafræði Alsace-manna og ná þeir jafnháu eða hærra alkóhólmagni. Markmiðið er að framleiða sterkilmandi vín með miklum berjakeim en litlu sykurinnihaldi. Vínin eru oft með nettan olíukeim.
Frá Nýja Sjálandi koma vín með ferska sýru og suðrænan ávaxtakeim, steinefna einkennin leyna sér yfirleitt ekki.


Riesling frá Bandaríkjunum eru gjarnan líkari þeim þýsku, hálfsæt, með ferska sýru, epla og apríkósukeim.
Riesling frá Chile er farið að láta sjá sig í Vínbúðunum, ósæt og fersk vín sem einkennast af sítrus, eplum, greip og passjón ávexti. Og auðvitað er hinn yndislegi olíukeimur til staðar. Ég verð að viðurkenna að ég er nokkuð skotinn í þessum vínum.

Páll Sigurðsson vínráðgjafi
Páll Sigurðsson
vínráðgjafi