Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Sósugerð sem engan svíkur

Mörgum finnst smá víndreitill sjálfsagður hluti af góðri sósugerð. Hversu margir velta þó vöngum yfir því hvaða vín þeir nota í sósuna sína? Alltof oft notar fólk síðustu dropana frá síðustu viku eða ódýrasta vínið sem fannst í vínbúðunum. Þetta er merkilegt í ljósi þess að fæstir myndu nota illa farið og ólystugt rósmarín í uppáhalds sósuna sína, hvað þá skipta henni út fyrir þá kryddjurt sem ódýrast fæst þann daginn. Að sjálfsögðu er best að vanda valið á víninu í sósuna þar sem það er jú einn aðal bragðgjafinn í mörgum sósum. 

Hér eru nokkur góð ráð um notkun vína í sósur fyrir áhugamenn um matargerð: 

  1. Ekki elda með víni sem þú myndir ekki drekka. Oxað vín (t.d. vín sem hefur staðið opið í tvær vikur á eldhúsborðinu) skánar ekkert í sósu.
  2. Best er að nota létt vín eins og Pinot Grigio frá Norður-Ítalíu þegar útbúa á léttar sósur og að sama skapi þung vín eins og Cabernet Sauvignon fyrir þær bragðmeiri.
  3. Bragð verður ávallt sterkara þegar vínið er soðið niður.
  4. Fyrir þungar og feitar sósur henta sýrurík vín eins og Sauvignon Blanc afar vel, og einnig má notast við óeikað Chardonnay.
  5. Heppilegast er að nota sama vínið í sósuna og borið verður fram með matnum. Þannig er öruggt að vínið og maturinn falla fullkomlega hvort að öðru. Ef vínið er í dýrari kantinum er hægt að nota ódýrara vín í sósuna og setja smá lögg af dýrara víninu í lokin til að tengingin náist.

 

Sósugerð