Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Pinotage töffari sem erfitt er að ala upp

Lauslega þýtt: Páll Sigurðsson

Hingað er komin þrúga sem er ræktuð í fjarlægu landi, Suður-Afríku. Hann er hundleiður á því að vera sífellt ruglað við þekkta franska mömmu sína.

 

Bleeessaður, þú ert langt að kominn gestur! Segðu okkur örlítið um sjálfan þig.
– Já, Ég er næstum 80 ára gamall. Fæddist í Stellenbosch í Suður-Afríku. Gamla settið er frá Frakklandi, mamma, heitir Pinot Noir og pabbi Cinsaut.

Margir vínneytendur taka feil á þér og mömmu þinni. Sennilega vegna nafnsins.
– Jújú, ég veit allt um það! Og þeir verða alltaf fyrir vonbrigðum, því ég er hvorki glæsilegur, né með yndislegan tælandi ávöxt. þeir segja að ég sé klunnalegur, stamur og brenndur. En það er jú vegna þess að þeir vænta bragðsins af mömmu.

Þú hefur engin aukanöfn, eins og flestar þrúgur, eða hvað?
– Nei. En það er nú vegna þess að ég er lítt sjáanlegur í öðrum löndum. Þar af leiðandi þarf ég ekki fleiri nöfn á öðrum tungumálum.

Hm, einmitt. Þar að auki ert þú víst ekki mjög vinsæll heima hjá þér. Það heyrist sagt að hluti víngerðarmanna í Suður-Afríku eigi erfitt með að þola þig.
– Hluti?! Þeir verða sífellt fleiri og fleiri. Nei, þeir vilja hafa smjaður og sleikjulegar þrúgur sem skríða fyrir þeim. Eins
og þær sem fá alltaf hæstu einkunnirnar. Til dæmis Cabernet Sauvignon, hann tróð sér fram fyrir mig fyrir áratugum síðan.
Ég hata hann!

Svona, svona. þó nokkrir vínræktendur hafa mætur á þér og láta þig vaxa á gömlum vínvið. Síðan færð þú að gerjast við góðan hita og huggulegheit áður en þeir láta þig liggja um tíma á eikartunnum. Og þá verður þú virkilega góður.
– Þetta segir þú bara til að kæta mig. Eða ertu bara að smjaðra fyrir mér?!

Sjáðu til, ef þú værir ekki svona erfiður viðureignar, þá myndu kannski fleiri vínræktendur og víngerðarmenn kunna að meta þig. Hefur þú eitthvað pælt í því?
– Oh. Nú lætur þú alveg eins og jurtaskólasálfræðingurinn. Það eru þvert á móti þeir sem vinna með mig, sem eiga að vera
þolinmóðir og skilningsríkir!

Pinotage

PINOTAGE Í STUTTU MÁLI

Litur: Oft nokkuð ljósrauður en getur verið mjög dökkur.

Ilmur: Við litla uppskeru og góða víngerð fá vínin oft ilm af bæði plómum og brómberjum,   ásamt því að hafa stundum reyk eða gúmmí tóna. Sé uppskerunni ekki haldið í skefjum og ekki vandað nægilega til víngerðarinnar, fá vínin oft banana- eða asetonilm.

Bragð Sama og í ilmi, fer þó eftir gæðum. Komi þrúgurnar af gömlum vínvið, látnar gerjast við hátt hitastig og komast í snertingu við eik, verður vínið kröftugt, ávaxtaríkt og ristað. En vín gerð úr þrúgum af ungum vínvið geta verið stöm, gróf og ekki sérlega ávaxtarík.

Vex: Aðallega í grennd við Höfðaborg í Suður-Afríku. Lítið eitt er ræktað af þrúgunni Kalíforníu, Þýskaland, Zimbabwe og Nýja Sjálandi.

Gott með: Bragðmiklum kjötréttum með berjasultu. Í Suður-Afríku er gjarnan borðað þurrkað og saltað kjöt ,,biltong” með víninu.

Texti: Christina Heinä Liman.
Myndskreyting: Andreas Bennwik
Lauslega þýtt: Páll Sigurðsson
Áður birt í Bolaget, janúar 2003, fréttariti Systembolaget.
Birt með góðfúslegu leyfi Systembolaget í Svíþjóð