Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Vín frá Suður-Afríku

Páll Sigurðsson, vínsérfræðingur (úr Vínblaðinu, 1.tbl. 4.árg.)

Það hefur varla farið framhjá mörgu vínáhugafólki hvernig úrval suður-afrískra vína hefur gjörbreyst til hins  betra í vínbúðunum á undanförnum árum. Þróunin hefur verið sú sama í öðrum heimshornum og gróska í víngerð í Suður- Afríku hefur sömuleiðis farið ört vaxandi. Ein ástæðan er sú að Afríkumönnum hefur  fleygt fram í víngerð á síðastliðnum árum, en önnur ástæða og jafnvel enn veigameiri er að markaðir á Vesturlöndum hafa tekið við sér. Eins og kunnugt er beittu Vesturlönd viðskiptabanni á Suður-Afríku vegna aðskilnaðarstefnunnar, en hún var afnumin fyrir 13 árum og upp frá því hafa neytendur um allan heim áttað sig æ betur á þessum auðdrekkanlegu og þægilegu vínum. Afríkumenn hafa auk þess notað tímann vel frá því að nýir markaðir opnuðust og brugðist við ört vaxandi eftirspurn. Suður-Afríkubúar er þó engir byrjendur i vínrækt og hefur vínrækt verið stunduð þar í aldir. Lega landsins og veðurfar skapa kjöraðstæður til vínræktar. Helstu vínræktarsvæðin eru á svæðum nálægt Höfðaborg og eru yfirleitt í innan við 50 kílómetra fjarlægð frá strandlengjunni sem liggur meðfram Atlantshafi í vestri og Indlandshafi í austri. Vindar frá hafi, bæði úr suðri og vestri blása svölum andvara yfir víngarðana og er loftslagið því ekki eins heitt og ætla mætti miðað við legu landsins. Innar í landinu er heitara, en skýjaþykkni sem myndast þar svo til daglega halda hitastiginu innan eðlilegra marka fyrir vínræktina. (Mynd: Uppskerumaður að störfum í Stellenbosh, Suður-Afríku. Heiderbergfjöllin í baksýn.)

Upphafið

Upphaf vínræktar í Suður-Afríku má rekja til þess er hollenska Austur-Indíafélagið setti upp birgðastöð við Góðravonarhöfða fyrir kaupskipaflota sinn árið 1652. Tilgangurinn var að sjá hollenska flotanum fyrir  ferskum matvælum á hinni löngu leið til Indlands og nærliggjandi landa (þetta var vitaskuld löngu fyrir tíð Súez-skurðarins og siglingaleiðin til Indlands lá suður fyrir Afríku og um Indlandshaf). Þar sem skilyrði fyrir vínrækt virtist góð lét landstjórinn, Jan van Riebeeck, fyrrum skipslæknir, senda sér vínvið frá Evrópu, en vín var meðal annars álitið gott við skyrbjúg. Vín var í fyrsta skipti pressað í febrúar 1659 og lofaði útkoman það góðu að upp frá þessu var vínviður gróðursettur þarna í stórum stíl. Van Riebeeck hvatti bændur ákaft til að rækta vínvið, en í upphafi höfðu þeir lítinn áhuga á því. Í fyrstu bar framleiðslan ekki vott um mikla þekkingu né reynslu og mátti þar margt bæta. Á þessu varð breyting þegar Simon van der Stel kom til sögunnar og tók við sem landstjóri. Hann var mikill ákafamaður og hafði til að bera góða þekkingu á vínrækt og víngerð. Stuttu eftir komu hans til Suður-Afríku, setti hann hörð viðurlög á vínbændur ef þeir uppskáru áður en þrúgurnar höfðu náð fullum þroska eða létu vínið gerjast í óhreinum tunnum og kjöllurum.

Þó reglur Austur-Indíafélagsins hafi bannað starfsmönnum sínum að stunda viðskipti eða aðra starfsemi í  eigin nafni, tókst van der Stel að ná fram undantekningu á þessu fyrir sjálfan sig. Árið 1685 setti hann á laggirnar víngarð suð-austur af Höfðaborg, sem hann kallaði Constantia. Undir styrkri stjórn hans voru víngarðarnir að stórum hluta til plantaðir með Muscat de Frontignan þrúgunni. Hann náði það góðum árangri með vínum sínum að þau skipuðu sama sess í vínumræðu þessa tíma og hin mestu gæðavín Evrópu.

Hollendingar höfðu litla sem enga reynslu í víngerð og það var ekki fyrr en með komu franskra Húgenotta, sem tóku sér bólfestu á svæði sem nú ber nafnið Franschhoek Valley, að vínrækt átti eftir komast á legg. Margir þessara innflytjenda höfðu bæði þekkingu og reynslu í vínrækt og stofnuðu þeir víngarða sem gátu af sér góðan orðstír. Afkomendur þeirra gegna enn þann dag í dag mikilvægu hlutverki í suður-afrískri víngerð. Aðskilnaðarstefnan (frá 1950-1993) hafði í för með sér að erfitt var að flytja út suður-afrísk vín. Innlend neysla á borðvíni var lítil og því ekki mikil eftirspurn eftir gæðavíni. Þó var nokkur heimamarkaður fyrir brandí. Eftir að aðskilnaðarstefnan var afnumin hafa vín frá Suður-Afríku borist í auknum mæli til Vesturlanda. Eins og víðast hvar annars staðar hafa vín þaðan einnig náð miklum vinsældum hér. Vínin eru yfirleitt góð og neytendavæn á skikkanlegu verði. Í Suður-Afríku eru einnig framleidd gæðavín á heimsmælikvarða.

Constantia vínræktarsvæði

VÍ N RÆK T A R S VÆÐ I

Constantia er elsta vínræktarsvæðið og var upphaflega einn búgarður en var svo hlutað niður í fimm smærri víngarða. Svæðið nýtur góðs af Atlantshafinu, en vindar frá False Bay hafa kælandi áhrif á víngarðana og er meðalhiti um 19°C á sumrin. Á veturnar rignir þó nokkuð sem gerir vökvun óþarfa, einkum þar sem rauður leirkendur jarðvegurinn dregur vatnið í sig. Helstu hvítu þrúgutegundirnar eru Chardonnay og Sauvignon Blanc. Vín úr Chardonnay eru bæði framleidd óeikuð, gerjuð í stáltönkum eða  gerjuð í eikartunnum. Sauvignon Blanc gefur svo af sér fersk vín með keim af sólberjalaufi og greipaldin. Stundum vilja víngerðarmennirnir draga fram grösuga tóna eins og af aspas og baunum. Rauðvín eru svo gerð úr Cabernet Sauvignon, Merlot og Shiraz. (Mynd: Gæsahópur í meindýraleit. Gæsirnar kjaga um víngarðanna í Stellenbosch héraði og éta snigla sem herja á plönturnar. )

Stellenbosch er aðeins 40 km frá Höfðaborg og er þekktasta vínræktarsvæði Suður-Afríku. Þar er fræðslu- og rannsóknarmiðstöð víniðnaðarins og flestir víngerðarmenn og vínræktendur Suður-Afríku fá þar þjálfun. Það var einmitt við háskólann í Stellenbosch, sem prófessor Abraham Perold gerði Pinotage þrúguna (1925), en hún er kynblönduð úr Pinot Noir og Cinsault þrúgunum. Fjöllótt landslagið með fjölbreyttum jarðvegi og loftslagi gerir svæðið eftirsóknarvert fyrir vínrækt. Þarna eru framleidd margskonar vín eins og t.d. Cap Classique, suður-afrískt freyðivín, sæt Riesling og styrkt vín. Þaðan koma einnig góð vín úr Sauvignon Blanc og eikargerjuð Chardonnay. Rauðvín eru gerð úr alþjóðlegum þrúgum eins og Cabernet Sauvignon og Merlot. Shiraz þrúgan nýtur vaxandi vinsælda og ekki má gleyma Pinotage. Sennilega eru gerð bestu Pinotage-vínin í Stellenbosch.

P a a r l þýðir perla, og dregur nafn sitt af samnefndu fjalli, sem glitrar eins og perla þegar sólin skín á það eftir rigningu. Héðan kemur um það bil fimmtungur af víni Suður-Afríku. Upphaflega voru víngarðarnir nær eingöngu notaðir til framleiðslu á hvítu þrúgunum: Chenin Blanc,

Paarl

Colombard og Palomino. Styrkt vín í sérrí og portvínsstíl voru meginframleiðslan. Í dag eru framleiðendur farnir að snúa sér meira að vínum úr rauðum þrúgum eins og Cabernet Sauvignon, Merlot, Pinotage og Shiraz. Í Paarl er loftslagið líkt því sem gerist í löndunum við Miðjarðarhaf. Meðalhitastig yfir ræktunartímann er 22,5°C sem er hærra en í Stellenbosch. Það rignir ekki alltaf nóg svo stundum þarf að vökva og er þá beitt nýjustu tækni, sem gefur vínviðnum aðeins nægilegan vökva hverju sinni. Vínin frá Paarl einkennast af háu alkóhólinnihaldi og þéttum ávexti.
(Mynd: Haustlitir á ónefndum vínakri í Paarl héraði. Stundum rignir ekki nóg þannig að vínbændur hafa komið upp fullkomnu vökvunarkerfi sem vökvar rétt mátulega mikið.)

 

Vínræktarsvæði

Suður-Afríka framleiðir um 3% af vínframleiðslu heimsins og er níunda í röðinni hvað magn snertir. Þó svo að upphaflega hafi megináherslan verið lögð á hvítar þrúgur, þá hefur orðið mikil aukning á ræktun á alþjóðlegum rauðum þrúgum. Framleiðsla á hágæðavínum hefur aukist mikið á síðast liðnum árum. Eins og hjá öðrum vínframleiðslulöndum, þá voru það ódýru og auðdrekkanlegu vínin sem komu suður-afrískum borðvínum á markaðinn. En nú eru margir vínframleiðendur farnir að leggja enn meiri metnað í framleiðslu sína og framleiða kröftugri vín sem standa jafnfætis vínum frá t.d. Chile og Ástralíu og allt er þetta árangur mikilla rannsókna og þrotlausrar endurbótavinnu. (Mynd: Landslagið í Paarl er stórbrotið með svipmiklil fjöll og indæla dali.)