Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Plastpokalausir Vestfirðir

02.08.2016

Sveitarfélögin á Vestfjörðum hafa unnið saman að því verkefni að stuðla að plastpokalausu samfélagi, en stefnt að því að Vestfirðir verði að mestu burðarplastpokalausir árið 2017. Vínbúðirnar taka að sjálfsögðu þátt í þessu verkefni með því að hvetja viðskiptavini til að velja fjölnota og bjóða upp á fjölbreytta valkosti, en viðskiptavinir hafa val um að kaupa 3 gerðir af fjölnota pokum.

Vínbúðirnar hafa nú í nokkurn tíma lagt áherslu á að stuðla að minni plastpokasölu og því styður þetta átak vel við umhvefis- og loftlagsstefnu (tók í gildi 1.1. 2022) fyrirtækisins. Það sem af er árinu hafa Vínbúðirnar selt tæplega 800 þúsund plastpoka sem þýðir að um 35% viðskiptavina kaupa plastpoka. Hlutfallið hefur verið að minnka lítillega ár frá ári, var 37% í fyrra og 40% þar áður.

Þessu tengdu hefur starfshópur á vegum Umhverfisstofnunar unnið að tillögum til að draga úr notkun plastpoka. Í tilkynningu frá þeim segir:
„Í  meginatriðum leggur hópurinn til að farið verði eftir breytingum sem gerðar verða á EES- samningnum um burðarplastpokanotkun þar sem fram kemur að árið 2025 eigi hver einstaklingur aðeins að nota 40 burðarplastpoka á mann. Talið er að hver Íslendingur noti um 105 burðarplastpoka á ári".