Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Yfirlýsing um loftslagsmál

17.11.2015

Nýverið skrifaði ÁTVR undir yfirlýsingu um aðgerðir í loftslagsmálum, en alls 103 fyrirtæki og stofnanir skuldbundu sig til að setja sér markmið og fylgja þeim eftir með aðgerðum sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnka myndun úrgangs. Auk þess verður árangur mældur og upplýsingum um stöðu mála miðlað reglulega.
 
Reykjavíkurborg og Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, efndu til þessa samstarfs og markar undirskriftin formlegt upphaf verkefnisins.  Það er hugsað sem hvatning til rekstraraðila um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og sýna þannig frumkvæði og ábyrgð gagnvart umhverfinu og samfélaginu. Þátttakendum verður boðin fræðsla um loftslagsmál, bæði hvernig nálgast á viðfangsefnið með praktískum hætti og reynslusögur annara fyrirtækja af því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í rekstri. Aðildarfyrirtækjum Festu, stofnunum og fyrirtækjum Reykjavíkurborgar og 300 stærstu fyrirtækjum á Íslandi var boðin þátttaka í verkefninu.
 
Í byrjun desember næstkomandi verður 21. Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna haldin í París og þar verður Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna vegna loftslagsbreytinga  (UNFCCC) samþykktur, en markmið hans er að sporna við hnattrænni hlýnun og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.


Nánari upplýsingar er að finna á vef Reykjavíkurborgar og vef Festu