Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Græn skref

11.11.2015

Skrifstofa ÁTVR og Dreifingarmiðstöð á Stuðlahálsi hlutu fyrr á árinu viðurkenningu Grænna skrefa, en höfuðstöðvarnar hafa nú lokið við öll fimm skrefin og var í raun önnur ríkisstofnunin til að ná þeim árangri.

Í gær afhenti Umhverfisstofnun síðan Vínbúðinni Heiðrúnu viðurkenningu Grænna skrefa. Vínbúðin Heiðrún  hefur lokið tveimur skrefum af fimm, en starfsfólk mun að sjálfsögðu halda áfram að vinna að næstu skrefum. Græn skref í ríkisrekstri eru einn liður í því að vera fyrirmynd á sviði samfélagsábyrgðar og ná settum umhverfismarkmiðum og er stefnt að því að allar 50 Vínbúðirnar innleiði skrefin, en Vínbúðin Hveragerði og Vínbúðin Akranesi hafa nú þegar lokið tveimur skrefum af fimm.

Vínbúðirnar eru einnig í öflugum hópi fyrirtækja sem skrifað hafa undir sameiginlega yfirlýsingu um markmið í loftslagsmálum. Um er að ræða fjölbreyttan hóp fyrirtækja sem hvert með sínum hætti hyggst draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnka úrgang í starfsemi sinni, og má því segja að Græn skref smellpassi inn í þau áform.

Anna Jónsdóttir tekur við viðurkenningu

Á myndinni má sjá Önnu Jónsdóttur verslunarstjóra í Heiðrúnu og Guðmund Inga Guðmundsson aðstoðarverslunarstjóra taka við viðurkenningunni frá Hólmfríði Þorsteinsdóttur sérfræðingi hjá Umhverfisstofnun. Við óskum Vínbúðinni Heiðrúnu innilega til hamingju með árangurinn!