Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Fimm græn skref í einu

29.06.2015

Höfuðstöðvar ÁTVR á Stuðlahálsi hlutu í dag viðurkenningu Grænna skrefa í ríkisrekstri frá Umhverfisstofnun. Græn skref eru leið fyrir opinbera aðila til að vinna markvisst að umhverfismálum eftir skýrum gátlistum og fá viðurkenningu eftir hvert skref. Höfuðstöðvarnar er sú fyrsta af starfsstöðvum ÁTVR til að ná þessu markmiði en allar Vínbúðirnar 49 vinna áfram að innleiðingu grænu skrefanna. 

Hólmfríður Þorsteinsdóttir verkefnastjóri afhenti viðurkenninguna sem undirrituð er af umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrúnu Magnúsdóttur. ÁTVR varð með því önnur ríkisstofnunin til að klára öll fimm Grænu skrefin, en Umhverfisstofnun var sú fyrsta. 

ÁTVR vinnur eftir virkri umhverfisstefnu  þar sem lögð er áhersla á að tryggja góða frammistöðu í umhverfismálum. Fyrirtækið styður við „Global Compact“ sáttmála Sameinuðu þjóðanna og vinnur með systurfyrirtækjum sínum á Norðurlöndum við að innleiða hugsun sjálfbærni og samfélagsábyrgðar inn í framtíðarstefnumótun fyrirtækjanna. Sáttmálinn byggir á grundvallarviðmiðunum á sviði mannréttinda, vinnuaðstæðna, umhverfismála og baráttu gegn spillingu.

Endurvinnsluhlutfall ÁTVR er með því hæsta sem fyrirtæki á Íslandi hafa náð, eða 91%. Einnig hefur náðst fram hagræðing víða, m.a. í vörudreifingu sem þýðir minni eldsneytiskostnaður og minni mengun. Einnig má nefna mikinn umhverfis- og fjárhagslegan sparnað í rafrænum skjalasendingum. ÁTVR kolefnisjafnar hjá Kolviði alla mengun sem bílar fyrirtækisins gefa frá sér sem og allt flug starfsmanna, erlendis og innanlands.  Með þessum aðgerðum og fleiri er stöðugt unnið að sjálfbærni í öllum verkferlum fyrirtækisins.

Græn skref í ríkisrekstri eru einn liður í því að vera fyrirmynd á sviði samfélagsábyrgðar og ná settum umhverfismarkmiðum. Upplýsingar um grænu skrefin er að finna á vef Grænna skrefa.
 

Á myndinni má sjá Hólmfríði Þorsteinsdóttur verkefnastjóra hjá Umhverfisstofnun afhenda viðurkenninguna Sigurpáli Ingibergssyni, gæðastjóra ÁTVR og Sveini Víkingi Árnasyni, framkvæmdastjóra hjá ÁTVR.