Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Humlar og malt

01.11.2011

Humlar og malt

Blóm klifurjurtarinnar humals gefur bjórnum beiskju en krydda hann einnig og gefa honum ilm sem getur minnt á greni, gras, laufkrydd, yfir í keim af sítrus eða jafnvel suðrænum ávöxtum, allt eftir því hverjar af hinum fjölmörgu tegundum humla eru notaðar.

Bygg er bleytt og látið spíra, en það kallast malt eftir að það hefur verið ristað til að þurrka það. Það er einmitt mismunur á þessari ristun sem ræður hversu dökkt maltið er og hversu mikið ristað bragð það gefur bjórnum. Bjórarnir geta haft hreinan kornilm, yfir í ristaðan, hnetukenndan keim, sem endar að lokum í brenndum eða jafnvel sviðnum tónum.

Humlar og malt

Bjórum má svo skipta í tvo flokka eftir því hvort þessara meginhráefna er meira áberandi í bragði bjórsins. Auðvitað hafa flestir bjórar humla og malt í einhvers konar jafnvægi, sama hvort þessara hráefna er svo meira áberandi. Þeir bjórar sem eru aðallega maltaðir hafa oftast einhverja sætu, karamellukeim og mýkt, meðan maður finnur ekki eins fyrir sætunni í bjórum sem eru meira humlaðir og beiskur, kryddaður og jafnvel grösugur keimur ræður ríkjum.

Ólíkt vínum er hægt að gera hvernig bjór sem er, hvar sem er, en einmitt þess vegna hafa hundruð svokallaðra bjórstíla þróast gegnum aldirnar og eru enn að þróast. Nöfn eins og Pale ale, Weissbier, Pilsner, Mild, Lambic, Kölsch og Schwarzbier eru nöfn á stílum bjórs, sem gjarna hafa þróast út frá hefð á tilteknu svæði, en hver stíll hefur sín einkenni og sitt einstaka bragð.

Langsamlega söluhæsti stíll bjóra, ekki bara á Íslandi heldur víðast í veröldinni, er ljós lagerbjór. Gjarna mjög mildir og einkennalitlir og væri hægt að líkja þeim við hvítt brauð eins og franskbrauð, ciabatta og baguette. Bjórarnir, eins og brauðin, geta verið mjög góðir en eru kannski ekki það bragðmesta sem maður kemst í tæri við og fjölbreytni þeirra er á fremur þröngu sviði. Reyndar eru til undirflokkar af þessum stíl, en helst er að nefna Pilsner og Bock sem báðir eru talsvert grösugri af aukinni humlanotkun og sá síðarnefndi talsvert maltmeiri en venjulegur lager. Einnig er gaman að dekkri lagerbjórum, t.d. Vínarstíl eða Schwarzbier, þar sem mikið ristaður keimur er áberandi og jafnvel slær fyrir lakkrístónum.

 Bresku ölin eru gjarna gosminni en önnur en breiddin er ótrúleg. Pale ale hafa mjúkan maltgrunn og áberandi humla, sérstaklega í india pale ale, eða iPA, sem eru talsvert beiskir. Brown ale eða Mild er gjarna ljósbrúnn á litinn og er, eins og nafnið bendir til, mjög mildur bjór. Porter og Stout eru alltaf dökkir á lit, með áberandi ristaða tóna, en fara frá þurrum léttum írskum stout yfir í níðþunga og oft talsvert sæta „imperial“ drykki.

Belgísku ölin hafa gjarna lítinn humlakeim, en eru oft kryddbætt og eru negull, kóríander og sítrusbörkur algeng krydd í þessum bjórum. Léttir og frísklegir Wit, eða belgískur hveitibjór með sinn einkennandi kryddtón. Trappist munkareglan bruggar maltmikla og þétta bjóra með stigvaxandi maltmagni. Súrir Lambic bjórar og Rauðöl, gerjaðir fyrir tilstilli sjálfkviknaðrar gerjunar, með villtu geri sem finnst í andrúmsloftinu á heimaslóðunum.

Ekki finnst lengur mikið af „öðruvísi bjór“ í Þýskalandi, en þó verður að minnast á Altbier og Kölsch, svalandi bjóra með mjúkristað malt og nokkuð grösugan humlakarakter. Weissbier eða þýska hveitibjórnum má ekki gleyma, en þessi stíll hefur verið nokkuð vinsæll enda talsvert öðruvísi, án þess að vera of krefjandi. Hveitibragðið á að vera áberandi, en oft má finna negul og bananakeim af þessum bjórum.

Þetta var engan veginn tæmandi úttekt á bjórflóru heimsins og var það svo sem ekki ætlunin, heldur frekar tilraun til að vekja athygli á því að fjölbreytnin er mikil og að það er algjör óþarfi að vera feimin(n) að prófa eitthvað nýtt.

 

Magnús vínráðgjafi

Magnús Traustason
Vínráðgjafi
Grein birt í Vínblaðinu, 9.árg. 3. tbl. september 2011