Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Rauðvínsspa

27.10.2010

Rauðvínsspa

Páll Sigurðsson, vínráðgjafi
( úr Vínblaðinu, 3.tbl.8.árg.)

Nýjasta æðið í vínneyslunni er Vín Spa. Nú er ekki lengur nóg að fóðra belginn að innanverðu með víni heldur þarf nú líka að smyrja skrokkinn að utanverðu með því. Að fara í rauðvíns- eða hvítvínsbað og svo fá gott nudd með þrúguhrati, það er toppurinn í dag. Fyrir þá sem vilja láta gera sig svolítið sæta, er væntanlega boðið upp á andlitsbað úr sætum þýskum Riesling.

Þeir sem vilja láta hressa sig upp fá þá að fara í heitan pott með fersku víni, hugsanlega Sauvignon Blanc eða þurru Riesling. Góður, öflugur, þéttur og tannískur Cabernet Sauvignon er svo eflaust fínn til að sparsla upp í hrukkurnar. Og Shiraz frá Ástralíu svo tilvalinn til að taka af manni hvítan næpulitinn eftir kalda og erfiða vetur. Flokkast þetta ekki undir ábyrga neyslu víns?

Ekta Vín Spa þarf að vera á vínræktarsvæði, svo það væri ekki amalegt að skella sér til Toscana, njóta fagurs útsýnis, baða sig svo úr Toscana og drekka. Ætli það sé óhætt að aka bifreið eftir gott rauðvínsnudd?