Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Indverskar uppskriftir frá Yesmine í Vínblaðinu

26.10.2010

Yesmine OlssonÍ nýjasta Vínblaðinu eru uppskriftir að girnilegum, indverskum réttum frá Yesmine Olsson. Hún er mörgum kunn en hún hefur meðal annars gefið út tvær matreiðslubækur, sett upp Bollywood sýningu í Veisluturninum með eigin matseðil og verið ráðgjafi fyrir veitingastaði eins og Nítjánda og Saffran. Yesmine er ekki lærður matreiðslumaður en hefur mikinn áhuga á matargerð sem kviknaði þegar hún byrjaði að keppa í fitness fyrir 15 árum. Yesmine er alin upp á mjög dæmigerðu sænsku heimili en er ættleidd frá Sri Lanka og fann hún fljótt að matur þaðan hentaði henni vel enda er hún viss um að löngunin og þörfin fyrir sterkan mat sé í blóðinu!

Haustið 2006 gaf hún út sína fyrstu matreiðslubók „Framandi og freistandi – létt og litrík matreiðsla“. Bókin hlaut frábærar viðtökur sem varð til þess að hún gaf út framhaldsbók 2008. Í þeirri bók eru indverskir og arabískir réttir í aðalhlutverki en það er sú matreiðsla sem hún hefur sérhæft sig í. Bókin hlaut 3 verðlaun í alþjóðlegri keppni matreiðslubóka „Gourmand world cookbook awards“ í flokki asískra rétta.

Þú getur nálgast Vínblaðið frítt í næstu Vínbúð, en hér má sjá einn réttanna sem birtust í Vínblaðinu. Einnig er hægt að nálgast fleiri spennandi uppskriftir frá Yesmine, bæði í Vínblaðinu og einnig á uppskriftavefnum.

 

KókóskjúklingurKÓKOSKJÚKLINGUR með raita
- Fyrir 2

  • 2 kjúklingabringur
  • 1-2 tsk chiliolía
  • 2 hvítlauksrif skorin í fínar sneiðar
  • 6 heilar kardimommur
  • 1 tsk kóríanderduft
  • 1-4 stk grænn chili fræhreinsaður og saxaður
  • 1 dl kókosmjólk
  • 2 msk jarðhnetur ristaðar

Aðferð: Ristið jarðhneturnar á þurri steikarpönnu og setjið til hliðar. Hitið olíuna við meðalhita á teflonpönnu. Bætið hvítlauk, kardimommum og kóríander út á pönnuna. Setjið kjúklinginn út á pönnuna og brúnið létt á öllum hliðum. Bætið chili út í og
hrærið í 12-15 mín. Hellið kókosmjólk hægt og rólega út í alveg í lokin og hrærið í á meðan. Að lokum er hnetunum stráð yfir.
Borið fram með hrísgrjónum, salati, naanbrauði og raitu.

 

RAITA

  • 1½ dós hrein jógúrt
  • 5 cm gúrka söxuð
  • 1 rauður chili fræhreinsaður og saxaður
  • 1 tsk fljótandi hunang
  • söxuð fersk mynta eftir smekk

Aðferð: Allt hrært saman og geymt í ísskáp á meðan kjúklingur er eldaður.

 

Gissur Kristinsson, vínráðgjafi ráðleggur vínið með:
Hér er kominn réttur sem ég er viss um að hin frábæru hvítu vín frá Alsace passa mjög vel með. Mig langar til að benda ykkur á að prófa sérstaklega þrúguna Gewürztraminer með allan ávaxtakokteilinn sinn og hunangskeiminn. Einnig er öruggt að eitt besta hvíta matarvín heims, Pinot Gris frá Alsace passar mjög vel með réttinum. En svona fyrir þá sem eru ævintýragjarnir má ekki gleyma því að klassískur þurr Riesling frá Alsace er mjög skemmtilegur kostur.