Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Aðgengi fatlaðra að Vínbúðum

07.04.2015

Síðustu daga hefur verið talsvert fjallað um aðgengi fatlaðra að þjónustu á landsbyggðinni í tengslum við ferð Brands Bjarnasonar Karlssonar um landið.  Ánægjulegt er að sjá að almennt eru ekki gerðar athugasemdir við aðgengi fatlaðra að Vínbúðum en hins vegar er ástæða til að gera athugasemdir við tvenn ummæli sem höfð eru eftir Brandi eftir umrædda ferð.  Á visir.is 3. apríl er haft eftir Brandi að aðgengið sé til fyrirmyndar en jafnframt segir  „.. þannig það virðist vera forgangsatriði fyrir fatlað fólk að komast í áfengisverslanir“.  Jafnframt er haft eftir Brandi í frétt á mbl.is. 6. apríl að líklega megi rekja gott aðgengi að Vínbúðunum til annars en sjónarmiða um aðgengi fatlaðra „Fólk þarf auðvitað að komast inn og út úr búðinni með kerrur...“  

ÁTVR vill taka fram að sérstaklega er hugað að aðgengi fatlaðra þar sem ÁTVR rekur Vínbúðir. Þegar auglýst er eftir húsnæði er aðgengi fyrir fatlaða eitt af þeim skilyrðum sem þarf að uppfylla. Mikið er lagt upp úr því að framfylgja þeim lögum og reglum sem gilda um aðgengi fatlaðra. Í þeim tilfellum sem komið hafa fram ábendingar um að aðgengið sé ekki fullnægjandi hefur verið ráðist í úrbætur. Það á því ekki við nein rök að styðjast að aðgengið ráðist af kerrum fyrir viðskiptavini eða að það sé forgangsatriði að selja fötluðum áfengi. Markmiðið er allir viðskiptavinir hvort sem þeir eru fatlaðir eða ófatlaðir hafi aðgang að þeirri þjónustu sem Vínbúðirnar bjóða.