Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Innihald íslensks neftóbaks

17.02.2015

Í dag hafa fjölmiðlar fjallað um innihald íslensks neftóbaks.  ÁTVR  vill leiðrétta þann misskilning að verslunin hafi ekki upplýst Landlækni um nikótíninnihald og innihald krabbameinsvaldandi efna í neftóbakinu. Landlæknir hafði þessi gögn í höndum í mars 2013 eða um leið og niðurstöður mælinga lágu fyrir. 

 
Að auki hefur ÁTVR boðið Landlækni að sjá um og birta skrá yfir innihaldsefni tóbaks, sbr. 13 gr. reglugerðar um mynd- og textaviðvaranir á tóbaki og mælingar á hámarki skaðlegra tóbaksefna, sem Landlæknir hefur, af einhverjum ástæðum, ekki haft tök á að gera til þessa.
 
Í DV í dag kemur jafnframt fram að í íslensku neftóbaki sé 115% meira nikótín en í hinu sænska General tóbaki. Þarna er ekki verið að bera saman sambærilega hluti. 

Mælingin á íslenska tóbakinu er svokallað „total nicotine“ (2,8% af þurrefni) en mælingin sem vísað er í á sænska tóbakinu er svokallað „free nikotine“ eða sá hluti nikótínsins sem getur auðveldlega frásogast.

Í grein hjá National Institute of Health sem heitir „New and traditional smokeless tobacco: comparison of toxicant and carcinogen levels“ ( http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC2892835/ ), kemur fram í töflu á blaðsíðu 11 að „total nicotine“ General Snus er 1,67% en free nicotine er 0,769%
Þegar vörunar eru bornar saman þá er sambærilegt nikótín 2,8% í íslenska neftóbakinu og 1,67% í því sænska. Rétt er að geta þess að nikótín innihald getur breyst nokkuð eftir hrátóbakinu sem notað er hverju sinni. ÁTVR notar hrátóbak frá Swedish Match sem er einmitt framleiðandi General tóbaksins.
Í samræmi við markmið laga og stefnu fyrirtækisins um samfélagslega ábyrgð hefur ÁTVR vakið athygli á skaðsemi neftóbaks og hvatt til minni notkunar á því.