Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Verslunarmannahelgin í Vínbúðunum

05.08.2014

Verslunarmannahelgin í VínbúðunumSala áfengis í vikunni fyrir verslunarmannahelgi var 0,3% minni í lítrum talið en í sömu viku fyrir ári.  Samtals seldust 724 þúsund lítrar af áfengi þessa vikuna en í fyrra seldust 727 þúsund lítrar.  0,1% færri viðskiptavinir komu einnig í Vínbúðirnar á tímabilinu miðað við í fyrra eða rúmlega 128 þúsund viðskiptavinir bæði árin.

Sala á föstudeginum var 7,5% meiri í ár en í fyrra og munar það því að í fyrra var 1. ágúst á  fimmtudegi en á föstudegi í ár.  Á móti kemur að salan á fimmtudeginum 31. júlí í ár var tæplega 21% minni en í fyrra. 

Föstudagurinn fyrir verslunarmannahelgi er jafnan einn annasamasti dagur ársins og í ár var engin undantekning á því.  Rúmlega 266 þúsund lítrar seldust á föstudeginum og rúmlega 42 þúsund viðskiptavinir komu í Vínbúðirnar.  Sama dag fyrir ári seldust 248 þúsund lítrar og tæplega 41 þúsund viðskiptavinir komu í Vínbúðirnar.

Salan í Vínbúðinni í Vestmannaeyjum var rúmlega 15% meiri í ár en í fyrra og munar þar mestu um söluna á föstudeginum, sem var um það bil 73% meiri í ár en í fyrra.

Salan í Vínbúðinni á Akureyri var rúmlega 8% meiri í ár en í fyrra og munaði þar mestu um söluna á föstudeginum, sem var 13% meiri en í fyrra og laugardeginum, sem var tæplega 31% meiri en í fyrra.

Salan í Vínbúðinni á Egilsstöðum var 1% meiri en í fyrra og salan í Vínbúðinni á Ísafirði var um það bil 10% minni í ár en í fyrra.

Til samanburðar þá var samtals salan í magni í Vínbúðum í Reykjavík 4,4% minni í ár en sömu viku í fyrra.