Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Páskagull verður selt í Vínbúðunum

12.03.2012

Páskagull verður selt í VínbúðunumÍ kjölfar þess að ÁTVR hafnaði því að bjórinn Páskagull yrði seldur í Vínbúðunum m.a. á grundvelli þess að merkingum væri áfátt leitaði Ölgerðin Egill Skallagrímsson álits hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.  Heilbrigðiseftirlitið hefur nú skilað niðurstöðu sinni. Þar er tekið undir athugasemdir ÁTVR um að breyta þurfi merkingunum til samræmis við ákvæði gildandi laga og reglugerða um matvæli. Enn fremur er lagt til að hæfilegur frestur til úrbóta sé við næstu prentun umbúða.

Ölgerðin Egill Skallagrímsson hefur ákveðið að viðeigandi lagfæringar verði gerðar við næstu prentun umbúðanna. Í ljósi þess að nýjar reglur hafa verið settar um merkingar á umbúðum áfengis mun Ölgerðin einnig á næstu mánuðum endurskoða hönnun umbúða sinna á bjór þannig að skýrari línur verði á milli áfengrar vöru og óáfengrar enda sé það hagur neytenda að ekki fari milli mála um hvort sé að ræða.

ÁTVR og Ölgerðin hafa í kjölfar þessarar niðurstöðu komist að samkomulagi um að bjórinn Páskagull verði tekinn til sölu í Vínbúðunum.