Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Pinnið á minnið!

08.06.2011

Pinnið á minnið!Vínbúðirnar taka þátt í innleiðingu á nýrri tækni í öruggari kortafærslum með pinni í stað undirskriftar.
Posarnir snúa að viðskiptavinum sem staðfesta kortagreiðslur með pinni í stað undirskriftar og örgjörvakort og örgjörvaposar auka öryggi í kortaviðskiptum.

Brátt munu íslenskir korthafar fara að staðfesta greiðslur með pinni (PIN-númeri) í stað undirskriftar, líkt og þekkist víða erlendis. Íslensk fyrirtæki sem taka við kortagreiðslum þurfa því að setja upp örgjörvaposa sem snýr að viðskiptavinum. Í stað þess að afhenda greiðslukortið setur viðskiptavinurinn það sjálfur í posann og slær inn pinnið sitt til að staðfesta viðskiptin.

Með þessum breytingum mæta Íslendingar alþjóðlegum kröfum en örgjörvakort og pinni gera kortaviðskipti öruggari, bæði fyrir korthafa og fyrirtæki. Erfitt er að misnota stolið kort á sölustað sem krefst þess að viðskipti séu staðfest með pinni, hafi korthafinn varðveitt pinnið sitt með öruggum hætti. 
 
Vínbúðir stíga fyrstu skrefin
Verslanir og þjónustufyrirtæki eru byrjuð að setja upp posa sem snúa að viðskiptavinum til þess að mæta þessum kröfum. Í völdum Vínbúðum geta korthafar nú þegar staðfest viðskipti með pinni í stað undirskriftar, því þar er posi sem tekur við örgjörvakortum og snýr að viðskiptavinum.

Enn um sinn munu korthafar eiga þess kost að staðfesta greiðslur á gamla mátann með undirskrift en nýjum posum mun þó fjölga hratt í verslunum landsins. Framvegis verða allir korthafar að leggja pinnið á minnið, því á næstu mánuðum verða settir upp 10-15 þúsund örgjörvaposar hérlendis. Til að staðfesta með pinni þarf örgjörvakort en íslensk kreditkort eru öll orðin þeirrar gerðar. Útgáfa debetkorta með örgjörva er á fleygiferð og verður að mestu lokið á þessu ári.

Pinnið á minnið
Verkefnið „Pinnið á minnið“ snýr fyrst um sinn að íslenskum fyrirtækjum sem þurfa að setja upp nýjan posa. Mikilvægt er að fyrirtækin hefjist þegar handa við að  undirbúa öruggari kortaviðskipti. Opnuð hefur verið sérstök vefsíða www.pinnid.is en þar er að finna upplýsingar um nauðsynleg skref fyrir öll fyrirtæki sem taka við kortagreiðslum. Á vefnum eru einnig leiðbeiningar fyrir starfsfólk og korthafana sjálfa.

PINNIÐ
Pinn er nýyrði í stað ensku sk.stöfunarinnar PIN.
Pinn beygist eins og skinn.


Nánari upplýsingar um verkefnið Pinnið á minnið veita:
Sigurður Hjalti Kristjánsson,
verkefnisstjóri frá Capacent
sigurdur.kristjansson@capacent.is
Sími: 842 2271 Guðmundur Kr. Hallgrímsson,
Greiðsluveitan
gudmundur@greidsluveitan.is
Sími: 860 8711