Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Syrah/ Shiraz - Sama þrúga tvö nöfn

04.01.2011

Páll Sigurðsson, vínráðgjafi
(úr Vínblaðinu, 4.tbl.8.árg.)

Hreindýr

Nú þegar villibráðin er farin að sjást á matarborðum landans kemur Shiraz ósjálfrátt upp í hugann, en rauðvín úr þessari þrúgu falla einstaklega vel með villibráð. Að öðrum þrúgum ólöstuðum stendur Shiraz uppúr þegar villibráð er annarsvegar. Vín úr þessari þrúgu geta nálgast villibráðina á fleiri en einn veg, allt eftir því hvaðan úr heiminum þau koma.

Ýmsar sögusagnir ganga um uppruna þrúgunnar. Ein gengur út á að hún sé ættuð frá Shiraz í Persíu, nú Íran, önnur segir að vínviðurinn hafi komið frá Egyptalandi og ferðast til Frakklands með viðkomu í Syracusa á Sikiley og fengið nafnið þaðan. Minnst rómantíska kenningin er sú að Syrah sé upprunnin í Rhône og hafi haldið sig þar og svo skotið rótum annarstaðar í vínheiminum, allavega virðast rannsóknir styðja það.

Hvað um það, það er sama hvaðan gott kemur. Þrúgan gengur undir tveim nöfnum allt eftir því hvar hún er ræktuð. Í Rhône í Frakklandi heitir hún Syrah, en í Ástralíu og víðast hvar annarstaðar í nýja heiminum er hún kölluð Shiraz, þó má oft sjá Syrah á flöskumiða frá öðrum vínræktarsvæðum en Rhône og má þá búast við að vínið hafi einkenni sem líkjast frönskum ættingjum hennar. Á flöskumiðum frá Nýja-Heiminum má auðveldlega sjá hvaða þrúgutegund er í flöskunni, en það er aðeins erfiðara að finna út hvar maður finnur Syrah í frönskum vínum en Frakkar hafa ekkert verið að hafa fyrir því að segja til um hvaða þrúgur er að finna í vínunum þeirra, því er nauðsynlegt að þekkja aðeins til í vínfrumskóginum. Vilji maður fá gæðavín úr Syrah þá er þau að finna í vínum frá Norður-Rhône til dæmis Hermitage, Côte-Rôtie, Crozes Hermitage og Saint-Joseph. Vínin frá Norður-Rhône eru vissulega hátt verðsett, en þessi vín eru jú eðalborin með mikinn virðuleika. Það er ekki krafturinn eða hamagangurinn sem treður sér fram í glasinu, heldur er hér vín sem fengið hefur fágað uppeldi, það er glæsibragur í öllu sem berst að skynfærunum; ilmur af fjólum, hindberjum, sólberjum, tjöru, reyk, leðri, kryddi og pipar svo fátt eitt sé nefnt.

Mér er enn í fersku minni sá ánægjulegi kvöldverður sem ég átti fyrir nokkrum árum þar sem íslenskt hreindýr var á borðum og Hermitage í glasinu. Munnvatnið spýtist fram í munnholið við að rifja upp þessa unaðsstund þegar smjattað var og kjamsað við hvern bita og hverjum sopa víns velt mörgum sinnum í munni áður en kyngt var. Kjötið, sem var hárrétt eldað, rautt og safaríkt, fékk dyggan stuðning frá glæsilegu og vel þroskuðu Hermitage, sem studdi vel við hreindýrið og dró fram villibragðið á undursamlegan hátt. Það er á svona stundum sem maður kvíðir þeim tímapunkti er magafylli er náð; þó svo tilgangur máltíðar sé að seðja og gleðja, þá er sárt að standa upp frá svona veisluborði og játa sig saddan og sælan og ekki pláss fyrir einn bita. Ég sem hélt að þessi víðáttubelgur sem umlykur mig miðjan gæti tekið við meiru. Ástralskur Shiraz hinsvegar er þéttur, kröftugur og galsafenginn, fullur af mjúkum oft sælgætiskenndum ávexti, þar sem búast má við kirsuberjum, sólberjum, súkkulaði, kryddi, lakkrís, mintu og eucalyptus (júkalyptus) að viðbættri vanillu og eik. Gleði og kátína brýst út með hverjum sopa og ekki minnkar ánægjan þegar víninu er skolað niður með íslenskri villibráð.

Sósur með villibráð innihalda oft eitthvað sætt eins og ber eða portvín og þá kemur Ástralinn sterkur inn með allan sinn mjúka ávöxt, en mörg ykkar hafa eflaust fundið út að stundum er það meðlætið sem ræður vínvalinu frekar en aðalhráefnið. Þrúgan Shiraz er ákaflega félagslynd og hefur í Ástralíu sést í fylgd með Cabernet Sauvignon og Merlot sem eflaust þykir jafnast á við föðurlandssvik í Frakklandi, en Ástralir láta engan segja sér fyrir verkum og gera tilraunir með allt mögulegt og ómögulegt til að ná þeim árangri sem hefur skilað þeim á þann stað í vínheiminum sem þeir eru á núna. Shiraz þrúgan er góð til blöndunar með öðrum þrúgum eins og sést í mörgum áströlskum vínum. Þetta má einnig sjá í vínum frá Suður-Rhône en þar eru aðrar þrúgur notaðar eins og til dæmis Grenache og Mourvèdre. Það eru sömu þrúgur og þið sjáið á áströlsku rauðvíni sem ber heitið GSM og þar höfum við enn eina viðmiðunina; sömu þrúgur ólík vín. Ég hef það svo eftir áreiðanlegum heimildum að Shiraz þrúgan hafi í langan tíma verið að slá sér upp með franskættaðri hvítri þrúgu Viognier að nafni og verður að segjast að það er samband sem teljast verður vel lukkað.

Nú er sá árstími sem við gerum flest vel við okkur í mat og höfum eitthvað sem við erum ekki alltaf með á boðstólum. Ég reyni að gera það sama í víni og hafa aðeins dýrari vín en venjulega, til að gera vín- og matarupplifunina eftirminnilega. Vínið þarf þó ekki að vera svo dýrt að buddan leyfi manni ekki að skoða verðmiðann. Ef vínið kostar meira en velsæmið býður en forvitnin rekur mig áfram, þá hef ég notað þá aðferð að láta eina flösku af dýru víni duga fyrir allt að átta til tíu manns og hafa svo ódýrara vín á eftir. Ég hef líka haft þann háttinn á að fá einhvern til að bjóða mér í veislumat og koma svo sjálfur með vínið (virkar bara nokkuð oft), þannig ber ég bara kostnaðinn af víninu, en veislustjórinn kostnaðinn af matnum, svo er bara að vona að maður beri ekki skarðan hlut frá borði.