Fréttasafn

12.11.2004 | Vínin með jólamatnum - Vínsýning á Nordica hotel 20.-21. nóvember

Glæsileg vínsýning verður haldin á Nordica hotel dagana 20.-21. nóvember nk.

Vínbúðir og Vínþjónasamtök Íslands standa að sýningunni ásamt helstu innflytjendum léttra vína.

Áhersla verður lögð á “Vínin með jólamatnum”, en það þema byrjar í Vínbúðunum strax eftir sýninguna og stendur frá 22. nóvember og út desember. Af því tilefni verður bæklingur Vínbúðanna “Vínin með jólamatnum” fyrst kynntur á sýningunni og gefst þá tækifæri til að bragða á flestum þeim vínum sem þar koma fram.

Fróðleiksfúsum gestum sýningarinnar stendur margt til boða. Innlendir sem erlendir vínsérfræðingar halda fyrirlestra um víngerð og helstu einkenni vínheimsins. Gestum gefst tækifæri á að reyna á lyktar- og bragðskyn í blindsmakki og verða vegleg verðlaun í boði. Fulltrúar nokkurra sælkeraverslana verða á staðnum með margt girnilegt í boði. Að auki mun sérstök dómnefnd velja glæsilegasta bás sýningarinnar.

Óhætt er að fullyrða að sýningin Vínin með jólamatnum á Nordica hotel er stærsti viðburður í vínheiminum hérlendis á árinu. Vínbúðir og Vínþjónasamtök Íslands hafa áður haldið sýningar hvor um sig en komu sér nú saman um að sameina krafta sína og halda eina stórglæsilega sýningu.

Vínsýningin verður opin milli 14-18 helgina 20.-21. nóvember . Aðgangseyrir er 1.000 kr og fylgir Riedel glas með á meðan birgðir endast.

20 ára aldurstakmark.
 
 


Til baka

 

Breyta um leturstærð

  • Stækka letur
  • Minnka letur


  • Leit